30. október 2020

32. þingi Sjómannasambands Íslands frestað um óákveðinn tíma.

Í ljósi óvissu vegna Covid-19 faraldursins var ákveðið á fundi sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands þann 29. október 2020 að fresta fyrirhuguðu þingi, sem halda átti dagana 26. og 27. nóvember næstkomandi. Samkvæmt ákvörðun sambandsstjórnar er þinginu frestað um óákveðinn tíma.

Boðað verður til þingsins með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara þegar um hægist í þjóðfélaginu vegna þessa faraldurs og stjórnin telur óhætt að halda þingið.

29. október 2020

Stéttarfélög skipverja krefjast sjóprófa og kæra til lögreglu

Stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 hafa sent kröfu til Héraðsdóms Vestfjarða um að fram fari sjópróf vegna hópsmits um borð í togaranum og jafnframt sent lögreglustjóranum á Vestfjörðum kæru þar sem útgerð og fyrirsvarsmenn hennar eru kærð til lögreglu vegna mögulegra brota á sjómannalögum, sóttvarnarlögum og almennum hegningarlögum. Stéttarfélögin ítreka að nauðsynlegt er að rannsaka málið í kjölinn og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að ákvörðunum í málinu. Stéttarfélögin telja nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt að standa saman og tryggja að atvik sem þessi geti ekki endurtekið sig og að ljóst sé að útgerðarfélög geti ekki komist upp með að stefna starfsmönnum sínum í slíka hættu.

Sjá lögreglukæru og beiðnina um sjóprófið.

22. október 2020

Yfirlýsing frá stjórn SSÍ

Í kjölfar frétta af að skipverjar á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270 hafi flestir smitast af Covid veirunnu í síðustu veiðiferð skipsins var upplýst að strax og veikindanna varð vart um borð hafi sóttvarnaryfirvöld á Vestfjörðum óskað eftir því að skipinu yrði siglt til hafnar til að hægt væri að taka sýni til að ganga úr skugga um hvort skipverjarnir væru sýktir af kórónuveirunni. Þessu var hafnað af útgerðinni. Sóttvarnarlæknir á Vestfjörðum ítrekaði skv. fréttum oftar en einu sinni beiðni um að skipið kæmi til hafnar vegna fjölgunar þeirra sem veiktust um borð. Þessum ítrekuðu beiðnum var einnig hafnað af útgerð skipsins. Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur þetta atvik mjög alvarlegum augum og sendi því eftirfarandi yfirlýsingu frá sér vegna málsins:

"Yfirlýsing.

Í upplýsingum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum kemur fram að í byrjun veiðiferðar Júlíusar Geirmundssonar ÍS - 270, þar sem stærsti hluti áhafnarinnar veiktist af kórónuveirunni, hafi verið óskað eftir því við útgerðina að skipið kæmi í land vegna veikinda skipverja um borð. Beiðnin var ítrekuð þegar leið á veiðiferðina og fleiri veiktust. Fram kemur að útgerðin hafi hafnað þessum beiðnum sóttvarnalæknisins.

Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur viðbrögð útgerðarinnar alvarlegum augum þar sem ekki dylst nokkrum manni að farsótt geisar í landinu. Samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu í byrjun faraldursins út tilmæli til útgerða og sjómanna hvernig ætti að bregðast við kæmu upp veikindi um borð. Þau voru og eru alveg skýr. Útgerðin virðist hafa hunsað þessi tilmæli með öllu og hélt skipinu til veiða þrátt fyrir að skipverjar veiktust hver af öðrum. Í þessu tilviki virðist útgerð einungis hafa hugsað um fjárhagslegan ávinning útgerðarinnar frekar en heilsu og velferð áhafnar sinnar. Sjómannasamband Íslands fordæmir þá lítilsvirðingu sem útgerðin sýndi áhöfn skipsins með því að halda áfram veiðum þrátt fyrir mikil veikindi um borð.

Íslenskir sjómenn hafa unnið mjög náið með sínum útgerðum og sóttvarnaryfirvöldum til að reyna að koma í veg fyrir að smit berist um borð í skip og hafa þeir teygt sig ansi langt í þeim efnum umfram það sem kjarasamningar gera ráð fyrir.

Sjómannasamband Íslands krefst þess að íslenskar útgerðir fari að umræddum tilmælum í hvívetna og stofni ekki lífi og limum áhafna sinna í hættu að óþörfu á þessum hættutímum."

29. september 2020

Skiptaverð í október hækkar

Vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu milli viðmiðunartímabila sem ákvarðar skiptaverð til sjómanna þá hækkar skiptaverðið í október sem hér segir:

Þegar afli er seldur til skyldra aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72,5% af heildar aflaverðmætinu (ath. þó ágreining við SFS um þetta, en málið verður útkljáð í Félagsdómi á næstunni).

Þegar afli er seldur óskyldum aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72% af heildar aflaverðmætinu.

Þegar frystiskip selur afla með FOB söluskilmálum verður skiptaverðmætið í október 73% af verðmætinu en 67,5% ef selt er með CIF söluskilmálum.

Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðmætið í október 70% af FOB verðmætinu og 64,5% af CIF verðmætinu.

Þegar afli er fluttur út í gámum er skiptaverðið 72% af verðmætinu að frádregnum flutnings- og sölukostnaði.

Olíuverð hefur ekki áhrif á skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu í erlendri höfn. Skiptaverðið er 70% af söluverðmætinu þegar uppsjávarfiski er landað erlendis og 66% af söluverðmætinu þegar botnfiski er landað í erlendri höfn.

Að öðru leyti er vísað í töflu um skiptaverðið hér á heimasíðunni.

2. september 2020

Skiptaverð lækkar vegna hækkunar olíuverðs

Frá því heimsmarkaðsverð á olíu var sem lægst í vor hefur það aftur hækkað. Skiptaverð til sjómanna hefur því stöðugt lækkað frá því það var hæst í júní síðastliðnum. Skiptaverðið í september er komið í það sem sem það var áður en olíuverð byrjaði að lækka í kjölfar Covid faraldursins.

Sjá nánar í töflu á heimasíðunni undir liðnum "Skiptaverð".

24. júní 2020

Skiptaverð lækkar þann 1. júlí

Vegna hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði lækkar skiptaverð til sjómanna þann 1. júlí 2020.

Þegar afli er seldur til vinnslu innanlands verður skiptaverðið 73% af aflaverðmætinu þegar hann er seldur óskyldum aðila en 73,5% þegar hann er seldur skyldum aðila (sjá þó fyrri frétt um ágreining við SFS um þetta).

Skiptaverð á frystiskipunum verður 73,5% af FOB verðmætinu og 68% af CIF vermætinu í júlí. Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðið í júlí 70,5% af FOB verðmætinu og 65% af CIF verðmætinu.

Sjá má nánari upplýsingar um skiptaverðið í töflu hér á síðunni undir "skiptaverð".

28. maí 2020

Skiptaverð hækkar þann 1. júní

Vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu hækkar skiptaverð til sjómanna þann 1. júní næstkomandi.

Að gefnu tilefni er rétt að geta þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu einhliða yfirlýsingu til samtaka sjómanna þann 6. maí síðastliðinn og telja sig með þeirri yfirlýsingu geta sagt upp ákvæði í grein 1.29.1 í kjarasamningi aðila þar sem segir að skiptaverðið sé 0,5 prósentustigum hærra þegar aflinn er seldur skyldum aðila en þegar hann er seldur óskyldum aðilum. Rök SFS eru að ákvæðið hafi verið tímabundið og því sé hægt að segja því upp. Ákvæðið er þannig: "Á meðan unnið er að bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings á gildistíma þessa samnings, skal útgerð sem selur afla til eigin vinnslu innanlands, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila, skal skiptaverðmætishlutfall vera að lágmarki vera 70,5%. Aðrar tölur fyrir afla til eigin vinnslu innanlands breytast til samræmis við þetta." Í bókuninni um heildarendurskoðun kjarasamningsins var stefnt að því að ljúka þeirri vinnu fyrir 1. júlí 2019. Það tókst hins vegar ekki að ljúka heildarendurskoðuninni fyrir þessa viðmiðunardagsetningu og er því þeirri vinnu enn ólokið. Þó kjarasamningurinn hafi átt að gilda til 1. desember 2019 er enn ósamið við sjómenn. Hingað til hefur ekki verið ágreiningur um að síðast gildandi samningur gildi þar til nýr hefur verið gerður. Sjómannasamband Íslands hefur mótmælt þessari einhliða yfirlýsingu SFS og telur hana ekki standast þær reglur sem gilda á vinnumarkaði. Sjómannasamband Íslands hefur því sent málið til lögfræðings sambandsins og fer það væntanlega fyrir Félagsdóm fljótlega.

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu SFS frá 6. maí síðastliðnum telur Sjómannasamband Íslands að kjarasamningurinn sé í fullu gildi. Að mati Sjómannasambands Íslands hækkar því skiptaverðið þegar afla er landað til vinnslu innanlands í 77,5% af verðmæti aflans þegar hann er seldur skyldum aðila og í 77% af heildarverðmætinu þegar aflinn er seldur óskyldum aðila. Gildir þetta frá og með 1. júní 2020. Sjómenn á skipum þar sem aflinn er seldur skyldum aðila eru beðnir um að fylgjast vel með uppgjörum sínum fyrir júnímánuð og halda þeim til haga þannig að auðvelt verði að sækja mismuninn (77,5% í stað 77% eins og SFS boðar) á útgerðina ef niðurstaða Félagsdóm verður sambandinu í hag.

Skiptaverð á skipum sem frysta bolfiskafla um borð fer í 75,5% af fob verðmætinu og í 70% af cif verðmætinu ef aflinn er seldur með þeim söluskilmálum. Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðið 72,5% af fob verðmæti aflans og 67% af cif verðmætinu. Ef fiskiskip selur uppsjávarfisk í erlendri höfn er skiptaverðið 70% af heildarverðmætinu og ef siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66% af heildarverðmætinu.

Að öðru leyti er vísað til töflu hér á heimasíðunni um skiptaverð einstakra mánaða.

 

27. apríl 2020

Skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Sjá nánar í töflu hér á heimasíðunni um skiptaverð í einstökum mánuðum. 

24. mars 2020

Lokun skiptiborðs vegna COVID-19

Skiptiborði ASÍ, sem sér um símsvörun fyrir Sjómannasamband Íslands, hefur verið lokað vegna COVID-19 faraldursins.

Hægt er að ná í starfsmenn Sjómannasambands Íslands með því að hringja í bein símanúmer á skrifstofunni eða í gsm símanúmer starfsmanna.

Símarnir eru:

Valmundur Valmundsson, formaður

Beinn sími: 5355 674

GSM: 869 8687

 Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri

Beinn sími: 5355 675

GSM: 892 0175