24. mars 2020

Lokun skiptiborðs vegna COVID-19

Skiptiborði ASÍ, sem sér um símsvörun fyrir Sjómannasamband Íslands, hefur verið lokað vegna COVID-19 faraldursins.

Hægt er að ná í starfsmenn Sjómannasambands Íslands með því að hringja í bein símanúmer á skrifstofunni eða í gsm símanúmer starfsmanna.

Símarnir eru:

Valmundur Valmundsson, formaður

Beinn sími: 5355 674

GSM: 869 8687

 Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri

Beinn sími: 5355 675

GSM: 892 0175

16. mars 2020

Fiskiskip – leiðbeiningar um smitgát og viðbrögð ef grunur er um smit um borð

Einstaklingur í sóttkví má ekki koma um borð

Einstaklingur sem sýnir flensueinkenni er ekki heimilt að koma um borð.

Einstaklingi sem hefur umgengist einstaklinga sem eru með Covid-19 er ekki heimilt að koma um borð enda í sóttkví að skipan Landlæknis.

 

Áður en haldið er úr höfn

Gæta skal að lyfjakistu um borð og hafa samband við trúnaðarlækni eða heilsugæslu um æskilegar lyfjabirgðir.

Hafa hlífðarfatnað (gríma, hanskar, plastsvuntur) til að bregðast við smiti um borð, hreinsiefni og sótthreinsiefni.

Áður en haldið er úr höfn skal skipstjóri/útgerð ræða við áhöfnina um hvers ber að gæta við að verjast smiti (handþvottur, notkun handspritts, aukin þrif og sótthreinsun snertifleta, matsveinn skammti á diska o.s.frv.)

Áhöfnin skal við upphaf veiðiferðar upplýst um viðbragðsáætlun útgerðar ef smit kemur upp um borð. Fyrstu tvær vikur veiðiferðar skipta höfuðmáli.

 

Umgengni um borð

Skipverjar haldi sig eins mikið og mögulegt er út af fyrir sig og virði tveggja metra fjarlægð milli manna ef hægt er, t.d. í borðsal og í stakkageymslum.

Tilmæli verði gefin um að sem fæstir verði í borðsal og öðrum sölum á hverjum tíma. Skipverjum verði skipt í hópa á matartímum og áhöld, stólar, borð o.þ.h. sótthreinsað eftir að hver hópur hefur lokið máltíð. Matsveinn skammti á diska og afhendi hnífapör/leggi á borð.

Skipstjórar og yfirstýrimenn fari sem minnst eða ekki í borðsal og önnur rými skipsins þar sem umferð áhafnar er mikil. Þeim verði færður matur og annar viðurgerningur.

Vélstjóri á vakt verði í vélarrúmi eins og við verður komið. Ef ekki á vakt þá sem mest í klefa sínum. Vélstjórar neyti matar einir ef hægt er.

Munum reglulegan handþvott og sprittun. Spritta alla snertifleti eins og mögulegt er. T.d. eftir kaffipásu í stakkageymslu þar sem skipverjar virða fjarlægðarreglur.

 

Komið til hafnar

Ef skipverji á að fara næsta túr er mælst til að hann sé um borð nema brýna nauðsyn beri til.

Fari skipverji í land milli túra þá skal viðkomandi vera sem minnst á ferli nema brýna nauðsyn beri til.

Löndunargengi fari ekki í önnur rými skips nema þau sem nauðsynleg eru vegna vinnu eða öryggis, til að mynda stakkageymslur, borðsali eða vistarverur skipverja.

Eins eiga þessi tilmæli við um viðgerðarmenn og aðra sem þjónusta skip í höfn. Þeir séu aðeins á þeim svæðum þar sem vinna er nauðsynleg.

Svæði þar sem löndunargengi eða aðrir úr landi sem þjónusta skipið, fara um við vinnu sína verði þrifin og sótthreinsuð að vinnu lokinni áður en skipverjar fara um svæðið.

Þegar skip er í höfn skal vera handspritt við landgang og öllum er skylt að spritta hendur sínar áður er gengið er um borð í skipið.

 

Grunur um smit

Hafið strax samband við Stjórnstöð LHG/112. Látið útgerð/útgerðarstjórn skipsins einnig vita strax.  Skipstjóri ráðfærir sig við LHG/112 og útgerðarstjórn skipsins.   LHG vinnur samkvæmt Leiðbeiningum hafna og skipa og leiðbeinir um sóttvarnahöfn sem skipi er vísað til í samráði vð sóttvarnalækni. LHG tryggir upplýsingamiðlun til hlutaðeigandi hafnar

Skipstjóri ber ábyrgð á öllum aðgerðum og ákvarðanatökum.

Skipstjóri skal setja viðkomandi strax í tímabundna einangrun. Ekki er heimilt að flytja hann á milli klefa, hann skal vera áfram í sínum klefa með aðgengi að snyrtingu og sturtu sem öðrum er ekki heimilt að nota á meðan.

Skipstjóri skal tilgreina einn úr áhöfn sem hefur leyfi til að  umgangast þann sem er í sóttkví og færa honum mat og aðrar nauðsynjar.   Sami aðili skal sjá um hann allan tímann á meðan hann er í sóttkví. Sá aðili skal klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði (einnota hanskar, grímur, plastsvuntur). Öðrum er óheimilt að umgangast hann.

Allan búnað sem viðkomandi einstaklingur þarf á að halda í einangrun  skal ekki blanda saman við annan búnað áhafnar. Matarstell, búnaður og föt skulu þvegin sér og skal sá sem tekur við því klæðast  hlífðarbúnaði (einnota hönskum, grímu og plastsvuntu) sem má fara í lokaðan poka að notkun lokinni og í almennt sorp.  Fatnað og áhöld má þvo með heitu vatni og sápu að notkun lokinni.

 

Áður en komið er til hafnar

Undirbúið skipið og þann sem er í sóttkví áður en komið er til hafnar samkvæmt  ráðleggingum frá LHG/112 og sóttvarnalækni.

Mikilvægt er að aðrir úr áhöfn fari ekki frá borði heldur bíði frekari fyrimæla.

 

Eftir að sjúklingur er farinn frá borði

Mikilvægt er að þrífa svæði þar sem sá sem var í sóttkví hefur dvalið. Sjá bls. 6 og 7 í Leiðbeiningum https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38919/Lei%C3%B0beiningar-framl%C3%ADnustarfsmenn%2018022020.pdf eða hafið samráð við sóttvarnalækni um hvernig staðið skal að því.

xxx

 

EINUNGIS ER UM LEIÐBEININGAR AÐ RÆÐA OG ÞVÍ ER MIKILVÆGT FYRIR SKIPSTJÓRA OG ÚTGERÐ AÐ FYLGJA FYRIRMÆLUM SÓTTVARNALÆKNIS OG LHG.

Sjá meðfylgjandi hlekki fyrir frekari upplýsingar:

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38919/Lei%C3%B0beiningar-framl%C3%ADnustarfsmenn%2018022020.pdf

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item39477/Lei%C3%B0beiningar%20fyrir%20hafnir%20og%20skip.pdf

9. mars 2020

Þríhliða samkomulag um viðbrögð við COVID-19

Ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa náð þríhliða samkomulagi um aðgerðir til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi með því að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Aðilar hafa því orðið ásáttir um eftirfarandi:

  1. Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  2. Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
  3. Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekandi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars. 

Samkomulagið var undirritað 5. mars 2020

19. febrúar 2020

Félagsdómur, mál nr. 18/2019

Fyrir nokkru kom upp ágreiningur milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar um túlkun á d-lið 1. greinar gildandi samnings milli aðila.

Í 2. mgr. d-liðar í 1. gr. samningsins segir: "Ákveði útgerð að ráða vélavörð á bát styttri en 12 metrar að skráningarlengd með beitingarvél og 4 menn í áhöfn skal skiptaprósentan vera 20,36% af heildarverðmæti aflans sem skiptist jafnt milli bátsverja. Til viðbótar greiðir útgerð álag á aflahlut af sínum hlut þannig að skipstjóri hafi 100% álag og vélavörður 50% álag."

Landssamband smábátaeigenda hélt því fram að þessi regla gilti einnig um báta sem væru 12 metrar að skráningarlengd og lengri. Var það rökstutt með því að eftir að samningurinn var gerður varð breyting á lögunum um stjórn fiskveiða á þann veg að stærri bátar en áður gátu fengið veiðileyfi með krókaaflamarki. Taldi Landssamband smábátaeigenda að samningurinn tæki sjálfkrafa breytingum með breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða eða lögunum um áhafnir skipa. Þessu mótmælti Sjómannasamband Íslands enda samningurinn sjálfstæð gerð sem breytist ekki nema með samningi milli aðila. Sjómannasambandið vísaði því ágreiningnum í Félagsdóm til að fá úr þessu skorið.

Niðurstaða Félagsdóms er skýr, en í dómsorði segir: "Viðurkennt er að heimild til lækkunar á skiptaprósentu samkvæmt 2. mgr. d-liðar 1. gr. kjarasamnings SSÍ, FFSÍ og VM annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar, um kaup og kjör á smábátum frá 29. ágúst 2012, í 20,36% á bátum með beitingarvél og fjóra menn í áhöfn eigi einungis við um þá báta sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd þegar ráðinn er sérstakur vélavörður um borð í þá báta af þeirri stærð."

Dóminn má lesa hér.

7. maí 2019

Hækkun kauptryggingar 1. maí 2019

Samkvæmt kjarasamningi milli SSÍ og SFS, sem undirritaður var 18. febrúar 2017, hækkar kauptrygging og mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum frá og með 1. maí 2019. Samkvæmt samningnum verður kauptrygging háseta  kr. 326.780 á mánuði, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanna og netamanna kr. 408.476 á mánuði og kauptrygging yfirvélstjóra kr. 490.170 á mánuði. Mánaðarkaup aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verður kr. 371.072 frá og með 1. maí. Kaupskráin hefur verið uppfærð í samræmi við þessa breytingu.

Samkvæmt samningnum, gr. 1.44. skulu samningsaðilar endurskoða kauptryggingu og kaupliði samningsins í samræmi við þær hækkanir sem verða á almennum vinnumarkaði á árinu 2019. Samið var á almennum vinnumarkaði um krónutöluhækkun á launum og samkvæmt framangreindu ákvæði ætti því kauptryggingin að hækka til viðbótar í samræmi við þær breytingar sem samið var um á almennum vinnumarkaði. SFS hefur hins vegar hafnað að virða þetta ákvæði kjarasamningsins og verður því sú hækkun að bíða þar til fenginn er úrskurðu dómstóla í málinu.

2. desember 2018

31. þing SSÍ

31. þingi Sjómannasambands Íslands var frestað um óákveðinn tíma þann 12. október síðastliðinn vegna óvissu um framtíð sambandsins. Þrjú sjómannafélög innan SSÍ voru í viðræðum um sameiningu við tvö félög sjómanna sem standa utan SSÍ. Fyrir lá að ef af sameiningu þessara fimm sjómannafélaga hefði orðið yrði hið sameinaða félag ekki innan Sjómannasambands Íslands. Afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næstu tvö ár og stjórnarkjöri fyrir sambandið var því frestað um óákveðinn tíma vegna óvissu um framtíð sambandsins.  Fljótlega í framhaldi af frestun þingsins þann 12. október síðastliðinn var sameiningaviðræðum þessara fimm sjómannafélaga hætt og óvissu um framtíð SSÍ þar með eytt.

Boðað var til framhaldsþings þann 30. nóvember síðastliðin til að ljúka þingstörfum 31. þings sambandsins. Á framhaldsþinginu var kosin ný stjórn til næstu tveggja ára. Í sambandsstjórn SSÍ eiga sæti 17 fulltrúar frá aðildarfélögum innan SSÍ og 8 fulltrúar til vara. Nokkrar breytingar urðu á stjórninni. Í fyrsta lagi þurfti að fylla í sæti þeirra fulltrúa sem hurfu úr stjórninni fyrir um ári þegar Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur yfirgaf sambandið, en þeir áttu 3 menn í sambandsstjórninni og 1 varamann. Í öðru lagi gaf Konráð Alfreðsson sem var varaformaður SSÍ ekki kost á sér áfram til setu í stjórn sambandsins. Konráð kom inn í sambandsstjórn SSÍ á 17. þingi sambandsins þann 16. nóvember 1990, kom inn í framkvæmdastjórn á 18. þingi sambandsins þann 30. október 1992 og varð varaformaður sambandsins á 19. þingi sambandsins þann 4. nóvember 1994. Konráð hefur verið varaformaður sambandsins síðan þar til hann gaf ekki kost á sér áfram á síðasta þingi þann 30. nóvember 2018. Sjómannasamband Íslands þakkar Konráði störf hans hjá sambandinu í þágu sjómanna. Nýr varaformaður var kosinn Ægir Ólafsson frá Sjómannafélagi Ólafsfjarðar.

Nýja stjórn sambandsins, bæði sambandsstjórnina og hverjir eiga sæti í framkvæmdastjórn, má sjá hér á heimasíðunni undir stjórn.

 

5. nóvember 2018

Breyting á viðmiðunarverði frá 2. nóvember 2018

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur ákveðið að hækka viðmiðunarverð á slægðum þorski, óslægðum þorski og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila um 10% frá og með 2. nóvember 2018. Frá sama tíma hækkar viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa um 3,3%.

2. nóvember 2018

Að gefnu tilefni

Vegna algengs misskilnings sem við hjá Sjómannasambandi Íslands verðum vör við vegna málefna Sjómannafélags Íslands er rétt að árétta að Sjómannasamband Íslands er samband stéttarfélaga sjómanna víðs vegar um landið. Sjómannafélag Íslands á ekki aðild að Sjómannasambandi Íslands og því eru málefni þess félags Sjómannasambandi Íslands óviðkomandi.

18. október 2018

Viðræðum fimm sjómannafélaga um sameiningu slitið

Sjómannafélag Eyjafjarðar og Sjómannafélagið Jötunn sem bæði eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands hafa gefið út yfirlýsingu um að þau séu hætt viðræðum um sameiningu félaganna við þrjú önnur sjómannafélög. Framangreind sjómannafélög eru því ekki á leið út úr Sjómannasambandinu eins og útlit var fyrir.

15. október 2018

31. þing Sjómannasambands Íslands

Þing Sjómannasambands Íslands eru haldin annað hvert ár og er árið 2018 þingár hjá sambandinu. Þingið að þessu sinni var haldið dagana 11. og 12. október síðastliðinn. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga eru 5 sjómannafélög í viðræðum um sameiningu í eitt stórt landsfélag sjómanna. Af þessum 5 félögum eru 3 félög með aðild að Sjómannasambandi Íslands. Fyrir liggur samkvæmt fréttum að verði af sameiningu þessara 5 sjómannafélaga mun hið nýja sameinaða félag ekki ætla að eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands. Starfsemi sambandsins mun því dragast verulega saman verði af þessari sameiningu.

Þingstörfin á 31. þingi sambandsins lituðust því nokkuð af þeirri óvissu sem framundan er fyrir Sjómannasamband Íslands. Þar sem ekki er málefnaágreiningur milli þeirra félaga sem eru í sameiningaviðræðunum annars vegar og hinna aðildarfélaga sambandsins sem eftir verða hins vegar var þingstörfum fram haldið þar til ályktanir frá þinginu höfðu verð afgreiddar. Þegar kom að afgreiðslu fjárhagsáætlunar og stjórnarkjöri til næstu tveggja ára var lögð fram dagskrártillaga um að fresta þinginu um óákveðinn tíma. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar og stjórnarkjör  mun því fara fram þegar þinginu verður fram haldið en boðað verður til framhaldsþings þegar ljóst er orðið hvernig sameiningarviðræðum þessara 5 sjómannafélaga reiðir af.

Á þinginu voru samþykktar ályktanir um kjara- og atvinnumál og um öryggis og tryggingamál og er hægt að nálgast þær með því að smella á viðkomandi ályktanir.