18. október 2018

Viðræðum fimm sjómannafélaga um sameiningu slitið

Sjómannafélag Eyjafjarðar og Sjómannafélagið Jötunn sem bæði eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands hafa gefið út yfirlýsingu um að þau séu hætt viðræðum um sameiningu félaganna við þrjú önnur sjómannafélög. Framangreind sjómannafélög eru því ekki á leið út úr Sjómannasambandinu eins og útlit var fyrir.

15. október 2018

31. þing Sjómannasambands Íslands

Þing Sjómannasambands Íslands eru haldin annað hvert ár og er árið 2018 þingár hjá sambandinu. Þingið að þessu sinni var haldið dagana 11. og 12. október síðastliðinn. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga eru 5 sjómannafélög í viðræðum um sameiningu í eitt stórt landsfélag sjómanna. Af þessum 5 félögum eru 3 félög með aðild að Sjómannasambandi Íslands. Fyrir liggur samkvæmt fréttum að verði af sameiningu þessara 5 sjómannafélaga mun hið nýja sameinaða félag ekki ætla að eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands. Starfsemi sambandsins mun því dragast verulega saman verði af þessari sameiningu.

Þingstörfin á 31. þingi sambandsins lituðust því nokkuð af þeirri óvissu sem framundan er fyrir Sjómannasamband Íslands. Þar sem ekki er málefnaágreiningur milli þeirra félaga sem eru í sameiningaviðræðunum annars vegar og hinna aðildarfélaga sambandsins sem eftir verða hins vegar var þingstörfum fram haldið þar til ályktanir frá þinginu höfðu verð afgreiddar. Þegar kom að afgreiðslu fjárhagsáætlunar og stjórnarkjöri til næstu tveggja ára var lögð fram dagskrártillaga um að fresta þinginu um óákveðinn tíma. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar og stjórnarkjör  mun því fara fram þegar þinginu verður fram haldið en boðað verður til framhaldsþings þegar ljóst er orðið hvernig sameiningarviðræðum þessara 5 sjómannafélaga reiðir af.

Á þinginu voru samþykktar ályktanir um kjara- og atvinnumál og um öryggis og tryggingamál og er hægt að nálgast þær með því að smella á viðkomandi ályktanir.

4. september 2018

Breytingar á viðmiðunarverðum 4. september 2018

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að hækka viðmiðunarverð vegna viðskipta milli skyldra aðila um 1,2% á slægðum  þorski og um 7,8% á óslægðum þorski frá og með 3. september 2018. Frá sama tíma var ákveðið að lækka viðmiðunarverð á óslægðri ýsu um 7% vegna viðskipta milli skyldra aðila.

Fréttasafn