7. maí 2019

Hækkun kauptryggingar 1. maí 2019

Samkvæmt kjarasamningi milli SSÍ og SFS, sem undirritaður var 18. febrúar 2017, hækkar kauptrygging og mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum frá og með 1. maí 2019. Samkvæmt samningnum verður kauptrygging háseta  kr. 326.780 á mánuði, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanna og netamanna kr. 408.476 á mánuði og kauptrygging yfirvélstjóra kr. 490.170 á mánuði. Mánaðarkaup aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verður kr. 371.072 frá og með 1. maí. Kaupskráin hefur verið uppfærð í samræmi við þessa breytingu.

Samkvæmt samningnum, gr. 1.44. skulu samningsaðilar endurskoða kauptryggingu og kaupliði samningsins í samræmi við þær hækkanir sem verða á almennum vinnumarkaði á árinu 2019. Samið var á almennum vinnumarkaði um krónutöluhækkun á launum og samkvæmt framangreindu ákvæði ætti því kauptryggingin að hækka til viðbótar í samræmi við þær breytingar sem samið var um á almennum vinnumarkaði. SFS hefur hins vegar hafnað að virða þetta ákvæði kjarasamningsins og verður því sú hækkun að bíða þar til fenginn er úrskurðu dómstóla í málinu.

2. desember 2018

31. þing SSÍ

31. þingi Sjómannasambands Íslands var frestað um óákveðinn tíma þann 12. október síðastliðinn vegna óvissu um framtíð sambandsins. Þrjú sjómannafélög innan SSÍ voru í viðræðum um sameiningu við tvö félög sjómanna sem standa utan SSÍ. Fyrir lá að ef af sameiningu þessara fimm sjómannafélaga hefði orðið yrði hið sameinaða félag ekki innan Sjómannasambands Íslands. Afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næstu tvö ár og stjórnarkjöri fyrir sambandið var því frestað um óákveðinn tíma vegna óvissu um framtíð sambandsins.  Fljótlega í framhaldi af frestun þingsins þann 12. október síðastliðinn var sameiningaviðræðum þessara fimm sjómannafélaga hætt og óvissu um framtíð SSÍ þar með eytt.

Boðað var til framhaldsþings þann 30. nóvember síðastliðin til að ljúka þingstörfum 31. þings sambandsins. Á framhaldsþinginu var kosin ný stjórn til næstu tveggja ára. Í sambandsstjórn SSÍ eiga sæti 17 fulltrúar frá aðildarfélögum innan SSÍ og 8 fulltrúar til vara. Nokkrar breytingar urðu á stjórninni. Í fyrsta lagi þurfti að fylla í sæti þeirra fulltrúa sem hurfu úr stjórninni fyrir um ári þegar Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur yfirgaf sambandið, en þeir áttu 3 menn í sambandsstjórninni og 1 varamann. Í öðru lagi gaf Konráð Alfreðsson sem var varaformaður SSÍ ekki kost á sér áfram til setu í stjórn sambandsins. Konráð kom inn í sambandsstjórn SSÍ á 17. þingi sambandsins þann 16. nóvember 1990, kom inn í framkvæmdastjórn á 18. þingi sambandsins þann 30. október 1992 og varð varaformaður sambandsins á 19. þingi sambandsins þann 4. nóvember 1994. Konráð hefur verið varaformaður sambandsins síðan þar til hann gaf ekki kost á sér áfram á síðasta þingi þann 30. nóvember 2018. Sjómannasamband Íslands þakkar Konráði störf hans hjá sambandinu í þágu sjómanna. Nýr varaformaður var kosinn Ægir Ólafsson frá Sjómannafélagi Ólafsfjarðar.

Nýja stjórn sambandsins, bæði sambandsstjórnina og hverjir eiga sæti í framkvæmdastjórn, má sjá hér á heimasíðunni undir stjórn.

 

5. nóvember 2018

Breyting á viðmiðunarverði frá 2. nóvember 2018

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur ákveðið að hækka viðmiðunarverð á slægðum þorski, óslægðum þorski og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila um 10% frá og með 2. nóvember 2018. Frá sama tíma hækkar viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa um 3,3%.

Fréttasafn