17. febrúar 2021

Deilan við SFS um skiptaverðið tapast fyrir Félagsdómi

Þann 6. maí 2020 sendi SFS bréf til samtaka sjómanna þar sem tilkynnt var um uppsögn á ákvæði kjarasamningsins sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017. Um er að ræða  ákvæðið í grein 1.29.1. um 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur til skyldra aðila.

Sjómannasamband Íslands taldi að SFS gæti ekki sagt þessu ákvæði upp einhliða þar sem hingað til hefði ekki verið ágreiningur milli aðila um að síðast gildandi samningur gilti þar til nýr væri gerður. Samningurinn hafði gildistíma til 1. desember 2019 en þar sem nýr kjarasamningur hefur ekki verið gerður milli aðila taldi SSÍ að kjarasamningurinn sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017 væri enn í gildi enda unnið eftir honum. Sjómannasamband Íslands vísaði því málinu til Félagsdóms til að leysa úr þessum ágreiningi milli SFS og SSÍ um að 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur skyldum aðila gildi þar til nýr samningur kæmist á milli aðila.

Í gær var kveðinn upp dómur í Félagsdómi þar sem SFS er sýknað af af kröfu SSÍ. Frá og með 1. júní 2020 er því skiptaverðið það sama hvort sem aflinn er seldur skyldum eða óskyldum aðila. Dómurinn fellst á að síðastgildandi samningur haldi gildi sínu að því undanskildu að frá 1. júní 2020 fellur 0,5% hærra skiptaverðmætishlutfallið brott úr grein 1.29.1. Rökin virðast þau að ekki hafi verið haldinn fundur eftir 1. desember 2019 í starfshópnum sem vinna átti í bókunum samningsins á samningstímanum. Miðað við málflutning SFS fyrir Félagsdómi er ljóst að þau samtök voru aldrei á samningstímanum að vinna að heilindum í að ljúka vinnu við bókanirnar. Niðurstaða þessa máls setur því kjaraviðræðurnar við SFS í enn meiri hnút en þær viðræður voru í fyrir og því ljóst að viðræður við SFS munu ekki halda áfram nema undir handleiðslu ríkissáttasemjara.

Sjá dóminn.

4. janúar 2021

Skiptaverð lækkar í janúar 2021

Vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á gasolíu lækkar skiptaverð til sjómanna í janúar 2021 frá því sem það var í desember 2020.

Skiptaverð í viðskiptum milli skyldra aðila fer úr 72,5% í 70,5% af verðmæti aflans.

Skiptaverð í viðskiptum milli óskyldra aðila fer úr 72,0% í 70,0% af verðmæti aflans.

Þegar afli er frystur um borð verður skiptaverðið 72,0% af FOB verðmæti aflans og 66,5% af CIF verðmæti aflans.

Þegar rækja er unnin um borð verður skiptaverðið 69,0% af FOB verðmæti aflans og 63,5% af CIF verðmæti aflans.

Skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu erlendis er óháð olíuverði og er því óbreytt. Þegar siglt er með uppsjávarfisk er skiptaverðið 70% af söluverðmæti aflans erlendis.

Þegar siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66,0% af söluverðmæti aflans.

6. nóvember 2020

Útgerðin neitar að afhenda skipsdagbók

Útgerðin Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. hefur neitað að afhenda skipsdagsbók Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 fyrir sjópróf sem mun fara fram vegna hópsmits um borð í togaranum. Skylda útgerðarinnar til að afhenda skipsdagbókina er skýr samkvæmt siglingalögum. Útgerðin ber fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum. Stéttarfélög skipverja telja þessa afstöðu útgerðarinnar fordæmalausa, óeðlilega og á skjön við lögmælta skyldu. Skylda til að afhenda skipsdagbók í sjóprófi er skýr enda um að ræða helsta samtímagagn um atburði um borð í skipinu. Tregða útgerðarinnar hefur þegar leitt til tafa á að sjópróf geti farið fram, en dómari hafði upphaflega boðað að þau færu fram 6. nóvember.
Af þessu tilefni ítreka stéttarfélögin nauðsyn þess að málið sé rannsakað í kjölinn og allar staðreyndir komi upp á yfirborðið. Tregða útgerðarinnar að þessu leyti er til þess fallin að vekja upp grunsemdir um að skipsdagbókin geymi upplýsingar sem ekki þoli dagsljósið. Stéttarfélögin munu því þurfa að krefjast úrskurðar héraðsdóms um skyldu útgerðar til þess að afhenda skipsdagbókina. Ekki hefur þurft að kljást um þessi grundvallaratriði áður svo vitað sé.

Félag skipstjórnarmanna
Sjómannafélag Íslands
Sjómannasamband Íslands
Verkalýðsfélag Vestfirðinga
VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna

30. október 2020

Skiptaverð óbreytt í nóvember

Skiptaverð í nóvember vegna heimsmarkaðsverðs á olíu er óbreytt frá því sem það var í október. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróun heimsmarkaðsverðs olíunnar mánuð fyrir mánuð frá árinu 2015 og áhrif olíuverðsins á skiptaverðið. Græna línan sýnir olíuverði í $/tonn, en línurnar fyrir neðan sýna skiptaverðið. Ef olíuverðið er hærra en efsta bláa línan er skiptaverðið 70% ef aflinn er seldur óskyldum aðila innanlands. Ef olíuverðið fer niður fyrir neðstu línuna á myndinni er skiptaverðið 80% af heildarverðmæti aflans þega hann er seldur óskyldum aðila. Sjá nánar skiptaverðið undir flipanum "skiptaverð" á heimasíðunni.

 

30. október 2020

32. þingi Sjómannasambands Íslands frestað um óákveðinn tíma.

Í ljósi óvissu vegna Covid-19 faraldursins var ákveðið á fundi sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands þann 29. október 2020 að fresta fyrirhuguðu þingi, sem halda átti dagana 26. og 27. nóvember næstkomandi. Samkvæmt ákvörðun sambandsstjórnar er þinginu frestað um óákveðinn tíma.

Boðað verður til þingsins með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara þegar um hægist í þjóðfélaginu vegna þessa faraldurs og stjórnin telur óhætt að halda þingið.

29. október 2020

Stéttarfélög skipverja krefjast sjóprófa og kæra til lögreglu

Stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 hafa sent kröfu til Héraðsdóms Vestfjarða um að fram fari sjópróf vegna hópsmits um borð í togaranum og jafnframt sent lögreglustjóranum á Vestfjörðum kæru þar sem útgerð og fyrirsvarsmenn hennar eru kærð til lögreglu vegna mögulegra brota á sjómannalögum, sóttvarnarlögum og almennum hegningarlögum. Stéttarfélögin ítreka að nauðsynlegt er að rannsaka málið í kjölinn og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að ákvörðunum í málinu. Stéttarfélögin telja nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt að standa saman og tryggja að atvik sem þessi geti ekki endurtekið sig og að ljóst sé að útgerðarfélög geti ekki komist upp með að stefna starfsmönnum sínum í slíka hættu.

Sjá lögreglukæru og beiðnina um sjóprófið.

22. október 2020

Yfirlýsing frá stjórn SSÍ

Í kjölfar frétta af að skipverjar á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270 hafi flestir smitast af Covid veirunnu í síðustu veiðiferð skipsins var upplýst að strax og veikindanna varð vart um borð hafi sóttvarnaryfirvöld á Vestfjörðum óskað eftir því að skipinu yrði siglt til hafnar til að hægt væri að taka sýni til að ganga úr skugga um hvort skipverjarnir væru sýktir af kórónuveirunni. Þessu var hafnað af útgerðinni. Sóttvarnarlæknir á Vestfjörðum ítrekaði skv. fréttum oftar en einu sinni beiðni um að skipið kæmi til hafnar vegna fjölgunar þeirra sem veiktust um borð. Þessum ítrekuðu beiðnum var einnig hafnað af útgerð skipsins. Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur þetta atvik mjög alvarlegum augum og sendi því eftirfarandi yfirlýsingu frá sér vegna málsins:

"Yfirlýsing.

Í upplýsingum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum kemur fram að í byrjun veiðiferðar Júlíusar Geirmundssonar ÍS - 270, þar sem stærsti hluti áhafnarinnar veiktist af kórónuveirunni, hafi verið óskað eftir því við útgerðina að skipið kæmi í land vegna veikinda skipverja um borð. Beiðnin var ítrekuð þegar leið á veiðiferðina og fleiri veiktust. Fram kemur að útgerðin hafi hafnað þessum beiðnum sóttvarnalæknisins.

Stjórn Sjómannasambands Íslands lítur viðbrögð útgerðarinnar alvarlegum augum þar sem ekki dylst nokkrum manni að farsótt geisar í landinu. Samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu í byrjun faraldursins út tilmæli til útgerða og sjómanna hvernig ætti að bregðast við kæmu upp veikindi um borð. Þau voru og eru alveg skýr. Útgerðin virðist hafa hunsað þessi tilmæli með öllu og hélt skipinu til veiða þrátt fyrir að skipverjar veiktust hver af öðrum. Í þessu tilviki virðist útgerð einungis hafa hugsað um fjárhagslegan ávinning útgerðarinnar frekar en heilsu og velferð áhafnar sinnar. Sjómannasamband Íslands fordæmir þá lítilsvirðingu sem útgerðin sýndi áhöfn skipsins með því að halda áfram veiðum þrátt fyrir mikil veikindi um borð.

Íslenskir sjómenn hafa unnið mjög náið með sínum útgerðum og sóttvarnaryfirvöldum til að reyna að koma í veg fyrir að smit berist um borð í skip og hafa þeir teygt sig ansi langt í þeim efnum umfram það sem kjarasamningar gera ráð fyrir.

Sjómannasamband Íslands krefst þess að íslenskar útgerðir fari að umræddum tilmælum í hvívetna og stofni ekki lífi og limum áhafna sinna í hættu að óþörfu á þessum hættutímum."