Efnisyfirlit

Slysa- og veikindaréttur

Slysa- og veikindaréttur

Oftast reynir á þá grein sjómannalaganna frá 1985 sem snýr að réttindum sjómanna þegar slys eða veikindi ber að höndum. Hér að neðan er greinin birt í heild sinni en sjómenn skulu alltaf gæta þess að það er skýlaus réttur þeirra við slíkar aðstæður að þeir haldi sínum launum í allt að tvo mánuði við slíkar aðstæður. Eftirfarandi er 36. gr. laganna í heild sinni.

36. gr. laga nr. 35/1985: Um veikinda- og slysarétt

„Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns.

Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.

Skipverji, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnu, á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóma sem stafa af vinnunni skal fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr.

Skipverji á ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Nú vill skipverji neyta réttar síns samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins."