1. þing Sjómannasambands Íslands 2025

 

Ályktun um kjara- og atvinnumál sjómanna.

 

Lífeyrismál

  1. þing SSÍ ályktar eftirfarandi um lífeyrismál.

Nú vantar yfir 5,4 milljarða króna árlega til að lífeyrissjóðir sjómanna og verkafólks standi jafnfætis öðrum sjóðum landsins hvað varðar jöfnun örorkubyrði. Samið var um framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði árið 2005 til að tryggja jafna stöðu allra lífeyrissjóða. Ástæðan var augljós: örorkubyrði sjómanna og verkafólks, sem vinnur erfiðisvinnu, er margfalt meiri en í sjóðum þar sem félagsmenn starfa við léttari störf.

 

Þrátt fyrir þetta er núverandi framlag, 4,6 milljarðar, langt frá því að duga – það þyrfti að vera 10,1 milljarður til að ná meðaltali allra sjóða. Til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að þetta framlag ætti að falla niður að fullu árið 2026. Þá mun hallinn nema rúmum 10 milljörðum króna á ári – fé sem tekið verður beint af lífeyrisréttindum verkafólks og sjómanna.

 

Félagar í verkamanna- og sjómannasjóðunum fá allt að 20% lakari lífeyrisréttindi en aðrir fyrir sömu iðgjaldagreiðslur ef örorkuframlagið fellur niður.

Annars verður þetta veruleikinn:

  • Mismunurinn jafngildir 85–116 þúsund krónum minna á mánuði í ævilífeyri.
  • Yfir meðalævi eftir 67 ára aldur getur það kostað sjómenn og verkafólk 20–25 milljónir króna eða meira í beinu tekjutapi.

 

Þetta er ekkert annað en kerfisbundið óréttlæti sem grefur undan trausti á íslenska lífeyriskerfinu. Það sem kallað er „samtrygging“ er í raun ekkert annað en það að sjóðir sjómanna og verkafólks bera sína örorku einir og sér, á meðan aðrir sjóðir hafa fengið marga milljarða úr ríkissjóði – þó þeir hafi ekki þurft á því að halda.

 

Heildarupphðirnar sem runnið hafa úr ríkissjóði í þessa úthlutun nema um 70 milljörðum króna að nafnvirði eða tæpum 100 milljörðum á núvirði. Þar af hafa um 25 milljarðar farið til sjóða sem aldrei hefðu átt að fá krónu. Þar á meðal eru opinberir sjóðir með launagreiðendaábyrgð. Þetta er í beinni andstöðu við tilgang samkomulagsins frá 2005.

 

 

Gagnsæi í viðskiptum með fisk

  1. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands.

 

 

 

Verðlagsstofa skiptaverðs

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að veita meira fjármagni til Verðlagsstofu skiptaverðs. Stofnunin er undirfjármögnuð og getur þess vegna ekki beitt sér í því sem hún á að gera. Þ.e. að kanna hvort rétt sé gert upp við sjómenn. Þingið krefst þess mjög ákveðið að VS fái beinan stafrænan aðgang að tollskýrslum og Hagstofugögnum um afurðaverð í sjávarútvegi.

 

VS afli

  1. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Það er svívirða að Alþingi skyldi sjómenn til að inna af hendi vinnu við frágang á aflanum en heimili síðan að skerða laun sjómanna um 80% frá því sem segir í kjarasamningi, að greiða eigi fyrir þá vinnu.

 

VS afla var upphaflega ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Þingið telur að reglur um VS afla hafi ekkert með brottkast að gera, heldur noti útgerðir heimildir til að landa VS afla í öðrum tilgangi en að koma í veg fyrir brottkast. Þingið krefst þess að sjómenn fái fullan hlut skv. kjarasamningi fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig við að ganga frá afla um borð í skipi.

 

Vigtunarreglur

  1. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur um sjávarafla verði endurskoðaðar með það fyrir augum að endurvigtunarleyfi tengdra aðila verði afnumin.

Þingið fer einnig fram á að vigtunarreglur á uppsjávarfiski verði samræmdar.

 

Menntun sjómanna

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntasjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera. Það er skömm frá að segja að útgerðin í landinu greiði ekki í endurmenntunarsjóði vegna sjómanna sinna, heldur er gjaldið greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Í þessu tilfelli úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

 

Hafrannsóknir

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland.

 

Fjarskiptamál

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að samtök útgerðarmanna ásamt sjómönnum skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annara

landsmanna.

 

 

Verktaka til sjós

  1. þing Sjómannasambands Íslands varar mjög sterklega við því að sjómenn láti hafa sig í að taka að sér gerviverktöku til sjós. Enda er það kolólöglegt og vinna til sjós er alls ekki verktakavinna. Þingið beinir því til skattyfirvalda að fylgjast náið með þessum málum. Einnig að sjómenn sjálfir láti skattyfirvöld og stéttarfélög sín vita ef minnsti grunur er um verktakavinnu til sjós.

 

Mönnunarmál á fiskiskipaflotanum

  1. þing SSÍ ítrekar að mönnunarvandamál í fiskiskipaflotanum verða ekki leyst með þeim hætti að óvaningar verði á tímakaupi um borð í íslenskum fiskiskipum, utan hlutaskipta.

 

 

 

Samsköttun hjóna og sambúðarfólks

  1. þing SSÍ mótmælir harðlega framkomnum tillögum að falla frá reglum og lögum um samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Þeir sem hafa sjómennsku að aðalstarfi á Íslandi eru 99% karlmenn.

Hjón og sambúðarfólk kjósa að annað þeirra sé langdvölum fjarri heimilinu. Sá eða sú sem heima situr er í hlutastarfi, í námi eða er einfaldlega heimavinnandi og sér um börn og bú. Það er með öllu ótækt að refsa þessu fólki með því að afleggja samsköttunina.

Sjómenn greiða fullan tekjuskatt og útsvar til samfélagsins, samt nýta þeir innviði okkar mun minna en aðrir landsmenn. Fjölskyldur þeirra reikna sér ekki laun eftir fjármagnstekjum eða taka þau út arði. Sjómönnum er nokk sama þó samsköttun sé aflögð hjá þeim sem taka sín laun í formi arðgreiðslna eða með fjármagsntekjum.

Þingið minnir á að sjómannaafsláttirinn var tekinn af að fullu árið 2013. Nú skal aftur höggvið í sama knérunn. Efna þarf til frekara samtals við stjórnvöld um þessi mál.

 

Afnám séreignasparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána.

  1. þing SSÍ fagnar þeirri ákvörðun Ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að leyfa séreignasparnaður sé nýttur áfram til niðurgreiðslu húsnæðislána.

 

 

Ályktun um þóknanir erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands fordæmir afdráttarlaust þá ólögmætu markaðssetningu sem tíðkast hefur í starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi.

 

Samkvæmt lögum nr. 129/1997 er óheimilt að ráðstafa lífeyrisiðgjaldi í annað en lífeyrisréttindi. Þrátt fyrir það hafa erlendir aðilar á borð við Allianz og Bayern tekið stóran hluta af lífeyrissparnaði íslensks launafólks í þóknanir og kostnað – allt að 25,8% fyrstu fimm árin og að meðaltali 7,9% yfir 40 ára samningstíma. Þetta jafngildir milljörðum króna sem dregnir hafa verið af sparnaði launafólks og runnið í arðsemisvélar erlendra tryggingafélaga og íslenskra fjármálafyrirtækja.

Sölumenn þessara félaga hafa herjað sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði, beinlínis logið að unga fólkinu okkar og fengið það til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum og tilgreindri séreign  í slíkan sparnað. 34. þing SSÍ óttast að unga fólkið sé alls ekki upplýst sem skyldi um þá gífurlegu þóknun sem tekin er beint af iðgjöldum þeirra og hversu mikið þeir tapa á slíkum samningum til lengri tíma.

 34 þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að:

          Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið stöðvi tafarlaust miðlun lífeyrissparnaðar sem ráðstafar iðgjöldum í þóknanir.

          Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið staðfesti opinberlega að allar greiðslur sem byggjast á ráðstöfun iðgjalda í annað en lífeyrisréttindi séu óheimilar.

          Réttarstaða sjóðsfélaga sem þegar hafa tapað fé verði endurskoðuð, með það að markmiði að þeir fái tjón sitt bætt.

          Sérstök áhersla verði lögð á vernd ungs fólks sem er viðkvæmasti hópurinn fyrir þessari villandi markaðssetningu.

 

Þingið skorar á Umboðsmann Alþingis að hefja frumkvæðisrannsókn á þessu máli, þar sem augljóslega er um að ræða kerfisbundið brot á lögum og jafnræðisreglu, sem opinberar stofnanir hafa látið viðgangast árum saman.