Félagsdómur, mál nr. 18/2019

Fyrir nokkru kom upp ágreiningur milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar um túlkun á d-lið 1. greinar gildandi samnings milli aðila.

Í 2. mgr. d-liðar í 1. gr. samningsins segir: "Ákveði útgerð að ráða vélavörð á bát styttri en 12 metrar að skráningarlengd með beitingarvél og 4 menn í áhöfn skal skiptaprósentan vera 20,36% af heildarverðmæti aflans sem skiptist jafnt milli bátsverja. Til viðbótar greiðir útgerð álag á aflahlut af sínum hlut þannig að skipstjóri hafi 100% álag og vélavörður 50% álag."

Landssamband smábátaeigenda hélt því fram að þessi regla gilti einnig um báta sem væru 12 metrar að skráningarlengd og lengri. Var það rökstutt með því að eftir að samningurinn var gerður varð breyting á lögunum um stjórn fiskveiða á þann veg að stærri bátar en áður gátu fengið veiðileyfi með krókaaflamarki. Taldi Landssamband smábátaeigenda að samningurinn tæki sjálfkrafa breytingum með breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða eða lögunum um áhafnir skipa. Þessu mótmælti Sjómannasamband Íslands enda samningurinn sjálfstæð gerð sem breytist ekki nema með samningi milli aðila. Sjómannasambandið vísaði því ágreiningnum í Félagsdóm til að fá úr þessu skorið.

Niðurstaða Félagsdóms er skýr, en í dómsorði segir: "Viðurkennt er að heimild til lækkunar á skiptaprósentu samkvæmt 2. mgr. d-liðar 1. gr. kjarasamnings SSÍ, FFSÍ og VM annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar, um kaup og kjör á smábátum frá 29. ágúst 2012, í 20,36% á bátum með beitingarvél og fjóra menn í áhöfn eigi einungis við um þá báta sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd þegar ráðinn er sérstakur vélavörður um borð í þá báta af þeirri stærð."

Dóminn má lesa hér.