Fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila.

Þegar fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila lækkar, sérstaklega ef það lækkar tvo mánuði í röð, fáum við oft spurningar um á hvaða grundvelli verðið sé lækkað. Sjaldnar er spurt um ástæður fiskverðshækkana.

Eins og menn muna var í kjarasamningunum sem undirritaðir voru í febrúar 2017 ákveðið að viðmiðunarverð á þorski, ýsu og karfa tækju mið af þriggja mánaða meðaltali á verði þessara tegunda á fiskmörkuðunum. Miðað er við að verð á fiski að ákveðinni þyngd miðist við 80% af skilaverði (markaðsverð að frádregnum 5% uppboðskostnaði) síðustu þriggja mánaða á fiskmörkuðunum. Verð á öðrum þyngdum fisksins miðast síðan við fyrirfram gefna þyngdarkúrfu hverrar tegundar fyrir sig. Viðmiðunarverð á þorski og ýsu er ákveðið sérstaklega fyrir slægðan fisk annars vegar og óslægðan fisk hins vegar. Verðið á fiskmörkuðunum til viðmiðunar er eingöngu miðað við verð á fiski sem boðinn er upp á mörkuðunum án VS afla sem seldur er á fiskmörkuðunum. Bein fiskviðskipti í gegn um fiskmarkaðina og sala á VS afla á uppboði eru sem sagt ekki tekin með í meðalverði á fiskmörkuðunum þegar viðmiðunarverð milli skyldra aðila er ákvarðað.

Auk fiskmarkaðsverðsins eru breytingar á afurðaverði framangreindra tegunda hafðar til hliðsjónar við verðlagninguna þannig að ef verð á fiskmörkuðum breytist úr takti við breytingar á afurðaverði í íslenskri mynt grípur úrskurðarnefndin inn í verðlagninguna. Miðað er við ±5% frávik til lengri tíma litið.

Í kerfinu er eins mánaða töf á verðákvörðunum. Sem dæmi lækkaði þriggja mánaða meðaltal á slægðum þorski á fiskmörkuðunum vegna mánaðana október, nóvember og desember árið 2017 um 1,9% frá meðaltali mánaðanna september, október og nóvember sama ár. Þetta leiddi til þess að verð á slægðum þorski lækkað frá og með 5. janúar 2018 um 1,9%. Verð á slægðum þorski hækkaði hins vegar um 2,1% frá meðaltali mánaðanna október, nóvember og desember 2017 til meðaltals mánaðanna nóvember og desember 2017 og janúar 2018. Þetta leiddi til þess að verð á slægðum þorski var hækkað um 2,1% frá og með 5. febrúar 2018. Með sömu aðferð var verð á slægðum þorski lækkað um 2,8% þann 5. mars 2018 og aftur var verðið lækkað um 3,4% þann 5. apríl 2018. Breytingar á afurðaverði þorsks á þessu tímabili gáfu ekki tilefni til inngripa í verðlagninguna.

Byrjað var að nota þetta fiskverðsmódel fyrir þorsk, ýsu og karfa í júní árið 2017. Í júní 2017 var verð á slægðum þorski lækkað um 2,7% frá viðmiðunarverðinu í maí 2017. Fram til áramóta hækkaði síðan verðið 5 sinnum á árinu. Þann 4. júlí 2017 hækkaði verðið um 4,9%, um 3% þann 6. september, um 10% þann 2. október, um 3% þann 6. nóvember og um 3,5% þann 4. desember. Þann 5. janúar 2018 lækkaði síðan viðmiðunarverð á slægðum þorski um 1,9% en hækkaði aftur í febrúar 2018 um 2,1%. Í mars og apríl lækkaði hins vegar viðmiðunarverðið á slægðum þorski, fyrst um 2,7% þann 5. mars og síðan um 3,4% þann 5. apríl síðastliðinn.

Þrátt fyrir tvær lækkanir á viðmiðunarverði slægðs þorsks í röð hefur hækkunin verið 16,1% frá verðinu eins og það var í maí 2017 og er þá lækkunin sem varð þann 5. apríl síðastliðinn komin inn. Viðmiðunarverð á slægðri ýsu hækkaði um 2,1% frá maí 2017 til apríl 2018 og viðmiðunarverð á karfa er í apríl 2018 2,8% hærra en það var í maí 2017.

Viðmiðunarverð á óslægðum þorski er hins vegar 7,7% lægra í apríl 2018 en það var í maí 2017 og verð á óslægðri ýsu er 3,3% lægra í apríl 2018 en það var í maí 2017.

Verð á ufsa, slægðum og óslægðum, fylgir alfarið verðvísitölu afurðarverðs á landfrystum ufsaafurðum og er verðið í apríl 2018 2,7% lægra en það var í maí 2017.

Verðvísitala afurðaverðs sem notuð er fyrir þorsk er samanvegin vísitala landfrystra, saltaðra og feskra afurða. Fyrir ýsu er notuð samanvegin afurðaverðsvísitala fyrir landfrystar og ferskar afurðir. Í karfa er eingöngu stuðst við verðvísitölu landfrystra afurða þar sem vísitala fyrir ferskar karfaafurðir er ekki birt enn sem komið er.

Að lokum vona ég að framangreind samantekt útskýri hvernig breytingar á viðmiðunarverðum framangreindra fisktegunda eru ákvarðaðar.

Hólmgeir Jónsson