2. mars 2017

Breyting á viðmiðunarverði þorsks, karfa og ufasa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var viðmiðunarverð í viðskiptum milli skyldra aðila lækkað um 5% á slægðum og óslægðum þorski og um 5% í karfa. Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa var hins vegar hækkað um 1,8%. Framangreind ákvörðun gildir frá og með 2. mars 2017.

21. febrúar 2017

Þátttaka í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og verkfall

Eftir atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn sem undirritaður var milli samtaka sjómanna og SFS þann 18. febrúar síðastliðinn hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Sumir halda því fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leystst með stuttum fyrirvara. Eins og menn vita voru kjarasamningar felldir í tvígang í þessari deilu og því fróðlegt að skoða hvernig þátttakan var allt þetta ferli.

Kjarasamningur var undirritaður milli Sjómannasambands Íslands og SFS þann 24. júní 2016. Aðilar að þeim samningi voru öll aðildarfélög Sjómannasambandsins að VerkVest undanskildu. Sjómannafélag Íslands var ekki aðili að þeim kjarasamningi. Atkvæðagreiðslan um þennan samning fór fram ýmist með póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi. Atkvæðagreiðslan stóð yfir til 8. ágúst 2016 og voru atkvæði talin þann 10. ágúst 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 38,5%. Samningurinn var felldur með 66% atkvæða eins og menn vita.

Í kjölfar þess að kjarasamningurinn frá 24. júní 2016 var felldur var farið í atkvæðagreiðslu um allsherjarverfall á fiskiskipaflotanum. Atkvæðagreiðsla um verkfallið stóð í um mánuð og lauk henni þann 17. október 2016. Öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, en þetta eru sömu félögin og töldu sameiginlega um samninginn sem undirritaður var 18. febrúar 2017. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um verkfallið hjá aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélagi Íslands var samanlagt 54,2%. Verkfall var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.

Kjarasamningur var undirritaður þann 14. nóvember 2016. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Íslands voru ekki aðilar að þeim samningi, en þeir undirrituðu samning daginn eftir. Þessir samningar fóru í atkvæðagreiðslu og var verkfalli frestað. Atkvæðagreiðslunni um þessa samninga lauk 14. desember 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samningana var óvenju mikil eða 60,4% þegar félög innan Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélag Íslands eru talin saman.

Kjarasamningur var undirritaður 18. febrúar 2017 og voru aðilar að samningunum öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk að kvöldi 19. febrúar 2017 og stóð því yfir í stuttan tíma. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 53,4% eða sambærileg og um verkfallið og mun betri en um kjarasamninginn frá 24. júní 2016.

Samkvæmt framansögðu er hæpið að halda því fram að þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samninginn frá 18. febrúar 2017 hafi verið léleg. Þvert á móti er hún sambærileg og alla jafna um kjarasamninga hjá sjómönnum þrátt fyrir stuttan afgreiðslutíma á samningnum.

 

19. febrúar 2017

Kjarasamningarnir samþykktir.

Atkvæði hafa verið talin um kjarasamningana milli Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands annars vegar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins hins vegar sem undirritaðir voru 18. febrúar 2017.

Á kjörskrá voru 2.214 sjómenn og greiddu 1.189 þeirra atkvæði eða 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá.

Af þeim sem kusu um samninginn sögðu 623 já eða 52,4%. 558 sögðu nei eða 46,9%. Auð og ógild atkvæði voru 8 eða 0,7%.

Talningu atkvæða um samninginn lauk um kl. 21:00. Samkvæmt framansögðu voru kjarasamningarnir samþykktir. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi samþykktu einnig samninginn. Verkfalli sjómanna og verkbanni útgerðarmanna hefur því verið aflýst.

16. febrúar 2017

Kjaraviðræðurnar milli SSÍ og SFS

Viðræður SFS og sjómannasamtakanna hafa gengið vel liðna daga og sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur. Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þar sem um réttlætismál er að ræða hefur þetta veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Ráðherra hefur lagt til að fram fari heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Greining þessi er vafalaust jákvæð. Enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna.

24. janúar 2017

Viðræðuslit milli SSÍ og SFS.

Upp úr viðræðum milli samtaka sjómanna og útvegsmanna slitnaði á fundi hjá sáttasemjara í gær.

Eftir fund hjá sáttasemjara þann 17. janúar var gert hlé á viðræðunum þar til í gær. Aðildarfélög SSÍ notuðu tímann til að funda með sjómönnum og gera þeim grein fyrir stöðunni. Að mati samninganefndar sjómanna voru samningsaðilar búnir að ræða sig niður á lausnir varðandi frítt fæði, frían vinnu- og hlífðarfatnað og fjarskiptakostnað skipverja.

Út af stóð að útvegsmenn voru ekki tilbúnir til að nálgast lausn varðandi breytingu á skiptaverði vegna lækkunar á olíuverði og eins voru þeir ekki tilbúnir að taka á sig kostnað til að bæta sjómönnum upp afnám sjómannaafsláttarins. Þeir voru hins vegar tilbúnir að koma að viðræðum við stjórnvöld um bætur til sjómanna vegna sjómannaafsláttarins.

Á fundum aðildarfélaga SSÍ með sjómönnum síðustu daga voru skilaboð sjómanna skýr um að ekki ætti að hvika frá kröfunni um breytingu á skiptaverðinu vegna lækkunar á olíuverðinu. Þar sem hvorugur samningsaðila var tilbúinn til að hreyfa sig í þessari megin kröfu sjómanna var deilan þar með komin í hnút. Ríkissáttasemjari sleit því fundi og er annar fundur ekki boðaður í deilunni.

4. janúar 2017

Lækkun á viðmiðunarverði þorsks, ýsu, ufsa og karfa.

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna fundaði í dag um viðmiðunarverð fyrir þorsk, ýsu, ufsa og karfa. Þar sem kjarasamningar sjómanna, sem fólu í sér nýja nálgun við ákvörðun á viðmiðunarverði fyrir þorsk, ýsu og karfa, voru felldir var ekki hjá því komist að ákvarða viðmiðunarverðin samkvæmt gildandi kjarasamningi. Þegar í lok nóvember var komin lækkunarþörf á viðmiðunarverð þorsks og ýsu. Þar sem nýr kjarasamningur með nýrri nágun við ákvörðun viðmiðunarverðs sem hefði leitt til óbreytts fiskverðs var felldur þá var ákveðið að láta viðmiðunarverðin vera óbreytt á þeim tímapunkti. Nú var hins vegar ekki staða til að bíða lengur.

Úrskurðanefndin ákvað því eftirtaldar breytingar ,á viðmiðunarverðum neðangreindra tegunda:

Slægður þorskur -10%, óslægður þorskur -7%, slægð ýsa -5%, óslægð ýsa -10%, karfi -7% og slægður og óslægður ufsi -3,7%.

Ákvörðunin tekur gildi 4. janúar 2017.