21. júlí 2022

Lokað vegna sumarleyfa

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Sjómannasambands Íslands lokuð frá og með 25. júlí til og með 9. ágúst 2022.

Skrifstofan opnar aftur 10. ágúst 2022.

20. október 2021

32. þing Sjómannasambands Íslands

32. þing Sjómannasambands Íslands verður haldið dagana 4. og 5. nóvember næstkomandi á Grand Hóteli í Reykjavík. Þingið verður sett kl. 10:00 þann 4. nóvember.

Hér má nálgast dagskrá þingsins.

13. september 2021

Tilkynning

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa sameinast um gerð fræðsluefnis um brottkast. Fræðsluefnið er á veggspjaldi og í smáforriti fyrir síma. Þar er farið í nokkrum orðum um brottkast, reglur, undanþágur og úrræði.

Á undanförnum árum hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að umgengni við hafið og hvernig auðlindir þess eru nýttar. Eitt af því sem þar kemur til skoðunar er brottkast á fiski, en meginreglan samkvæmt íslenskum lögum er sú, að það er óheimilt. Og ætíð ber að tryggja það að stofnar séu nýttir með forsvaranlegum og sjálfbærum hætti. Ýmsar leiðir eru útfærðar í lögum til þess að koma í veg fyrir brottkast og tryggja rétta skráningu og vigtun á sjávarafla. Fræðsluefninu er ætlað á hnykkja á þeim reglum er gilda. 

Í baráttunni gegn brottkasti gegna sjómenn, starfsfólk og stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja lykilhlutverki. Það er von þeirra sem standa að útgáfu fræðsluefnisins að veggspjöld verði hengd upp á áberandi stað í bátum og skipum og forsvarsmenn útgerða tryggi að starfsmenn kynni sér fræðsluefnið í smáforritinu.

 

 

ÞETTA ER Í OKKAR HÖNDUM

BROTTKAST 

Á undanförnum árum hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að umgengni við hafið og hvernig auðlindir þess eru nýttar. Eitt af því sem þar kemur til skoðunar er brottkast á fiski, en meginreglan samkvæmt íslenskum lögum er sú að það er óheimilt. 

Ætíð ber að stuðla að því að fiskistofnar séu nýttir með sjálfbærum hætti til að tryggja þjóðinni hámarksafrakstur til lengri tíma. Ýmsar leiðir eru útfærðar í lögum til þess að koma í veg fyrir brottkast og tryggja rétta skráningu og vigtun á sjávarafla.

Í þeirri viðleitni gegna sjómenn, starfsfólk og stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja lykilhlutverki.

HVAÐA AFLA SKAL KOMA MEÐ AÐ LANDI?

Meginreglan er sú að skylt er að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri. 

Sjá 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

UNDANTEKNINGAR

Þrátt fyrir meginregluna um allan afla að landi gilda fáeinar undantekningar

Fyrsta undantekning: Heimilt er að sleppa ákveðnum tegundum sem eru lífvænlegar.

Lúða: Sleppa skal lífvænlegri lúðu.

Sjá nánar reglugerð um veiðar á lúðu.

Hlýri: Heimilt er að sleppa lífvænlegum hlýra.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. 

Grásleppa: Skip sem stunda netaveiðar, aðrar en grásleppuveiðar, er skylt að sleppa grásleppu sem er lifandi í netum.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

Háfur, hámeri og beinhákarl: Umsvifalaust skal sleppa lífvænlegum háfi, hámeri og beinhákarli.

Sjá nánar reglugerð um bann við veiðum á háfi, hámeri og beinhákarli.

Önnur undantekning: Heimilt er að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki eru háðar takmörkun á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi.

Ef markaður er fyrir fisktegund til manneldis, er litið svo á að hún hafi verðgildi og því skal koma með hana að landi. Einnig telst tegund hafa verðgildi ef tíma- eða svæðisbundinn markaður er fyrir hana.

Til dæmis er manneldismarkaður fyrir tindaskötu og upplýsingar frá fiskmörkuðum benda til þess að spurn sé eftir tindaskötu og því hafi hún verðgildi. Tindaskötu og öðrum álíka tegundum er því skylt að landa, en bannað að henda.

SKEMMDUR, SÝKTUR EÐA SELBITINN AFLI

Komi afli í veiðarfæri sem er sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt er ráðherra heimilt að ákveða að hann reiknist ekki til aflamarks skips.

Skylt er að koma með slíkan fisk í land og hann reiknast ekki til aflamarks fiskiskips, enda verði hann einungis nýttur til bræðslu.

Selbitinn og/eða skemmdan afla skal koma með að landi.

Sjá 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og

reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

INNYFLI, HAUSAR OG FLEIRA

Fyrir öll skip, ísfisktogara, línuskip og frystitogara gildir að skylt er að hirða og koma með að landi öll þorsk- og ufsahrogn.

Fyrir önnur skip en þau sem vinna afla um borð, til dæmis ísfisktogara og línuskip, sem ekki frysta um borð, gildir að skylt er að koma með að landi alla þorsk-, ufsa-, löngu-, keilu- og skötuselslifur.

Fyrir skip sem vinna afla um borð gilda ákveðin skilyrði, til dæmis frystitogara:

Grálúðuhausar: Skylt er að hirða og koma með að landi alla grálúðuhausa.

Þorskhausar: Skipum sem vinna afla um borð og eru með nýtanlegt lestarrúmmál (effective space) 600-800 m³ er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 30% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári. Skipum sem eru með meira en 800 m³ nýtanlegt lestarrúmmál er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 40% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári.

Í stað hausa er þessum skipum heimilt að koma með að landi samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum, einnig af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð.

Afskurður: Skylt er að hirða og koma með að landi allan afskurð sem til fellur við snyrtingu á þorsk-, ýsu-, karfa- og ufsaflökum um borð í skipum sem vinna afla um borð. Lestarrúmmál skipa samkvæmt þessum lið skal staðfest af Siglingastofnun Íslands.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

ÚRRÆÐI TIL AÐ DRAGA ÚR BROTTKASTI

Í fiskveiðistjórnunarkerfinu er að finna ákveðin úrræði sem ætlað er að draga úr hvata til brottkasts. Meginúrræðið er þó að tryggja að alltaf sé skráð aflamark á skip fyrir þeim afla sem ætla má að veiðist hverju sinni.

VS-afli: Heimilt er að landa lágu hlutfalli af afla án þess að hann dragist frá aflamarki skips. Þessi heimild skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil á fiskveiðiárinu og ekki má flytja ónýttar heimildir milli tímabila. Heimildin takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem skip veiðir á hverju tímabili. VS-afla skal halda aðskildum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega. VS-afli er boðinn upp á markaði og rennur stærsti hluti af andvirðinu í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS).

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Undirmálsafli: Undirmálsfiskur, það er fiskur sem er landað og er undir tiltekinni stærð, reiknast einungis að hálfu til aflamarks skips. Heimildin gildir aðeins um þorsk, ýsu, ufsa og gull- og djúpkarfa. Magn undirmálsafla má ekki fara yfir 10% af viðkomandi tegund í veiðiferð. Undirmálsafla skal haldið aðskildum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega.

Til undirmálsfisks telst:

þorskur < 50 cm (27 cm hausaður),

ýsa < 45 cm (26,5 cm hausuð),

ufsi < 50 cm (31 cm hausaður)

gull- og djúpkarfi < 33 cm.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Tegundatilfærsla: Felur í sér heimild til að nota aflamark í einni botnfisktegund vegna umframveiða á annarri botnfisktegund og skerðist þá aflamarkið hlutfallslega. Ekki er leyfilegt að nýta þessa heimild við þorskveiðar.

Heimild þessi takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má ekki vera meiri en sem nemur 1,5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks. Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund má ekki fara yfir 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Aflamarksframsal: Ef veiði skips fer umfram aflamark í einhverri tegund getur útgerð nýtt framsalsheimild til að auka við aflamark skipsins í viðkomandi tegund. Slíkt þarf að gerast innan þriggja daga frá því að veiðiferð lýkur.

Sjá nánar 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar og í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Umframafli: Heimilt er að veiða takmarkað magn umfram aflamark í botnfisktegundum, síld, skel og rækju og er umframaflinn dreginn af aflamarki ársins á eftir.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

EFTIRLIT

Fiskistofa hefur eftirlit með veiðum og vinnslu á sjávarafla á Íslandi. Þannig hefur stofnunin eftirlit með öllum skipum sem veiða í íslenskri lögsögu ásamt veiðum íslenskra skipa sem veiða utan lögsögu.

Eftirlit Fiskistofu með veiðum er þríþætt:

Eftirlitsmaður um borð.

Eftirlit með drónum á öllum miðum.

Eftirlit sem byggist á áhættumati ýmissa gagna sem stofnunin safnar.

 

 

7. september 2021

Kjaraviðræðurnar við SFS sigldu í strand

Eftir árangurslausar viðræður við SFS um endurnýjun kjarasamninga sjómanna frá því að samningarnir losnuðu þann 1. desember 2019 til febrúar 2021 var ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í von um að eitthvað færi að ganga í viðræðunum. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara með bréfi dags. 17. febrúar 2021.

Helstu kröfur sjómanna voru hækkun kauptryggingar og kaupliða hjá sjómmönnum til jafns við hækkanir skv. lífskjarasamningnum sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, fiskverðsmál, aukið mótframlag í lífeyrissjóð og fleira er snýr að réttindamálum og lagfæringum á samningnum til að gera hann einfaldari og auðskildari fyrir þá sem eiga að vinna eftir honum.

Nú hafa verið haldnir yfir 20 fundir hjá ríkissáttasemjara og á fundi þann 6. september síðastliðinn slitnaði upp úr viðræðunum þar sem of mikið ber í milli aðila. Helst strandar á að útgerðarmenn eru ekki tilbúnir til að auka mótframlagið í lífeyrissjóði sjómanna um 3,5% stig nema fá þann kostnað að fullu bættan og rúmlega það með auknum álögum á sjómenn með meiri þátttöku þeirra í ýmsum kostnaði útgerðarinnar. Sem dæmi hefur SFS ítrekað reynt að fá sjómenn til að samþykkja lækkun á hlutaskiptunum, samþykkja þátttöku í veiðigjöldum útgerðarinnar, samþykkja aukna þátttöku í kostnaði vegna slysatryggingar sjómanna og að samþykkja nýtt ákvæði um afslátt af skiptahlut vegna nýrra skipa. Þetta hafa þeir viljað fá gegn því að auka framlag útgerðarinnar í lífeyrissjóð sjómanna.

Helstu atriði síðasta tilboðs útgerðarinnar til sjómanna var að hækka kauptryggingu og kaupliði um aðeins tæpan helming af því sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, aukið framlag í lífeyrissjóð kæmi til sjómanna í 7 þrepum, 0,5% stig á ári frá undirritun samnings og að samningstíminn yrði 12 ár. Gegn þessu fóru þeir fram á að þátttaka sjómanna í kostnaði við slysatrygginguna hækkað á samningstímanum þannig að sjómenn greiddu þriðjung iðgjaldsins og að útgerðin fengi 10% afslátt á aflahlutum í fjögur ár fyrir ný skip. Auk þess yrði frystiálag á nýjum frystitogurum lækkað varanlega úr 7% í 5%.

Þessum tillögum SFS höfnuðu fulltrúar sjómanna að sjálfsögðu.

Aðilar hafa verið sammála um að afnema olíuverðstenginguna og skipta úr heildar verðmætinu. Sjómenn buðu að skiptaprósentur yrðu reiknaðar niður m.v. 70% samhliða afnámi olíuverðsviðmiðunarinnar á móti auknu framlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóðinn. Útgerðin hefur ekki fallist á það og vill meira eins og hér hefur komið fram. Jafnframt hafa sjómenn boðið 6 ára samning, en vilja að sjálfsögðu leiðrétta kauptrygginguna og hækka hana til jafns við almennar launahækkanir í landinu og tryggja að á samningstímanum hækki kauptryggingin í takt við launahækkanir á almenna vinnumarkaðnum.

Þokast hefur í samkomulagsátt varðandi að breyta stærðarviðmiðun báta í kjarasamningnum úr brúttórúmlestum í skráningarlengd, en eins og menn vita er hætt að mæla ný skip og skip sem hafa farið í breytingar í brúttórúmlestum og veldur þetta vandamálum varðandi hvaða skiptaprósentur eiga að gilda fyrir þessa báta í hinum ýmsu veiðigreinum. Samkvæmt kjarasamningi á útgerðin að kaupa þessa mælingu, en gerir ekki enda kostar slík mæling mikið. Jafnframt hefur þokast í samkomulagsátt varðandi styrkingu á Verðlagsstofu skiptaverðs og lagfæringar varðandi verðlagningu á uppsjávarfiski.

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings sjómanna hafa nú siglt í strand vegna kröfu útgerðarinnar um að sjómenn taki á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samnings á forsendum útgerðarinnar. Í yfirlýsingu frá útgerðinni segir að ef fallist yrði á kröfur sjómanna hlypi kostnaður útgerðarinnar á milljörðum árlega. Þetta er rangt. Á móti stærsta kostnaðarliðnum, auknu mótframlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóð, hafa sjómenn boðið ýmislegt sem kemur útgerðinni til góða. Má þar nefna afnám olíuverðsviðmiðunar og 6 ára samningstíma. Auk þess er rétt að fram komi að í kjarasamningum á almenna markaðnum um jöfnun lífeyrisréttinda var gert samkomulag við stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds á atvinnureksturinn til að létta fyrirtækjunum að mæta hækkuðu mótframlagi í lífeyrissjóð sem samið var um á árinu 2016. Útgerðin fékk lækkunina eins og annar atvinnurekstur á Íslandi en hefur ekkert lagt á móti til lífeyrismála sjómanna. Að lokum má nefna að með breytingu á stærðarviðmiði skipa sparar útgerðin sér kostnað við að láta mæla skipin í brúttórúmlestum. Allt það hagræði sem útgerðin fengi með því að ganga að tilboði sjómanna virða þeir einskis enda markmið þeirra að lækka laun sjómanna í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Segja má að afstaða SFS sé verulega dapurleg og mikil vonbrigði í ljósi þeirra leiða sem samtök sjómanna hafa lagt fram til lausnar kjaradeilunni.

22. júlí 2021

Lokun vegna sumarleyfa

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Sjómannasambands Íslands lokuð frá og með 26. júlí til og með 6. ágúst næstkomandi.

Skrifstofan opnar aftur mánudaginn 9. ágúst.

17. febrúar 2021

Deilan við SFS um skiptaverðið tapast fyrir Félagsdómi

Þann 6. maí 2020 sendi SFS bréf til samtaka sjómanna þar sem tilkynnt var um uppsögn á ákvæði kjarasamningsins sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017. Um er að ræða  ákvæðið í grein 1.29.1. um 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur til skyldra aðila.

Sjómannasamband Íslands taldi að SFS gæti ekki sagt þessu ákvæði upp einhliða þar sem hingað til hefði ekki verið ágreiningur milli aðila um að síðast gildandi samningur gilti þar til nýr væri gerður. Samningurinn hafði gildistíma til 1. desember 2019 en þar sem nýr kjarasamningur hefur ekki verið gerður milli aðila taldi SSÍ að kjarasamningurinn sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017 væri enn í gildi enda unnið eftir honum. Sjómannasamband Íslands vísaði því málinu til Félagsdóms til að leysa úr þessum ágreiningi milli SFS og SSÍ um að 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur skyldum aðila gildi þar til nýr samningur kæmist á milli aðila.

Í gær var kveðinn upp dómur í Félagsdómi þar sem SFS er sýknað af af kröfu SSÍ. Frá og með 1. júní 2020 er því skiptaverðið það sama hvort sem aflinn er seldur skyldum eða óskyldum aðila. Dómurinn fellst á að síðastgildandi samningur haldi gildi sínu að því undanskildu að frá 1. júní 2020 fellur 0,5% hærra skiptaverðmætishlutfallið brott úr grein 1.29.1. Rökin virðast þau að ekki hafi verið haldinn fundur eftir 1. desember 2019 í starfshópnum sem vinna átti í bókunum samningsins á samningstímanum. Miðað við málflutning SFS fyrir Félagsdómi er ljóst að þau samtök voru aldrei á samningstímanum að vinna að heilindum í að ljúka vinnu við bókanirnar. Niðurstaða þessa máls setur því kjaraviðræðurnar við SFS í enn meiri hnút en þær viðræður voru í fyrir og því ljóst að viðræður við SFS munu ekki halda áfram nema undir handleiðslu ríkissáttasemjara.

Sjá dóminn.

4. janúar 2021

Skiptaverð lækkar í janúar 2021

Vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á gasolíu lækkar skiptaverð til sjómanna í janúar 2021 frá því sem það var í desember 2020.

Skiptaverð í viðskiptum milli skyldra aðila fer úr 72,5% í 70,5% af verðmæti aflans.

Skiptaverð í viðskiptum milli óskyldra aðila fer úr 72,0% í 70,0% af verðmæti aflans.

Þegar afli er frystur um borð verður skiptaverðið 72,0% af FOB verðmæti aflans og 66,5% af CIF verðmæti aflans.

Þegar rækja er unnin um borð verður skiptaverðið 69,0% af FOB verðmæti aflans og 63,5% af CIF verðmæti aflans.

Skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu erlendis er óháð olíuverði og er því óbreytt. Þegar siglt er með uppsjávarfisk er skiptaverðið 70% af söluverðmæti aflans erlendis.

Þegar siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66,0% af söluverðmæti aflans.

6. nóvember 2020

Útgerðin neitar að afhenda skipsdagbók

Útgerðin Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. hefur neitað að afhenda skipsdagsbók Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 fyrir sjópróf sem mun fara fram vegna hópsmits um borð í togaranum. Skylda útgerðarinnar til að afhenda skipsdagbókina er skýr samkvæmt siglingalögum. Útgerðin ber fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum. Stéttarfélög skipverja telja þessa afstöðu útgerðarinnar fordæmalausa, óeðlilega og á skjön við lögmælta skyldu. Skylda til að afhenda skipsdagbók í sjóprófi er skýr enda um að ræða helsta samtímagagn um atburði um borð í skipinu. Tregða útgerðarinnar hefur þegar leitt til tafa á að sjópróf geti farið fram, en dómari hafði upphaflega boðað að þau færu fram 6. nóvember.
Af þessu tilefni ítreka stéttarfélögin nauðsyn þess að málið sé rannsakað í kjölinn og allar staðreyndir komi upp á yfirborðið. Tregða útgerðarinnar að þessu leyti er til þess fallin að vekja upp grunsemdir um að skipsdagbókin geymi upplýsingar sem ekki þoli dagsljósið. Stéttarfélögin munu því þurfa að krefjast úrskurðar héraðsdóms um skyldu útgerðar til þess að afhenda skipsdagbókina. Ekki hefur þurft að kljást um þessi grundvallaratriði áður svo vitað sé.

Félag skipstjórnarmanna
Sjómannafélag Íslands
Sjómannasamband Íslands
Verkalýðsfélag Vestfirðinga
VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna