18. október 2018

Viðræðum fimm sjómannafélaga um sameiningu slitið

Sjómannafélag Eyjafjarðar og Sjómannafélagið Jötunn sem bæði eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands hafa gefið út yfirlýsingu um að þau séu hætt viðræðum um sameiningu félaganna við þrjú önnur sjómannafélög. Framangreind sjómannafélög eru því ekki á leið út úr Sjómannasambandinu eins og útlit var fyrir.

15. október 2018

31. þing Sjómannasambands Íslands

Þing Sjómannasambands Íslands eru haldin annað hvert ár og er árið 2018 þingár hjá sambandinu. Þingið að þessu sinni var haldið dagana 11. og 12. október síðastliðinn. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga eru 5 sjómannafélög í viðræðum um sameiningu í eitt stórt landsfélag sjómanna. Af þessum 5 félögum eru 3 félög með aðild að Sjómannasambandi Íslands. Fyrir liggur samkvæmt fréttum að verði af sameiningu þessara 5 sjómannafélaga mun hið nýja sameinaða félag ekki ætla að eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands. Starfsemi sambandsins mun því dragast verulega saman verði af þessari sameiningu.

Þingstörfin á 31. þingi sambandsins lituðust því nokkuð af þeirri óvissu sem framundan er fyrir Sjómannasamband Íslands. Þar sem ekki er málefnaágreiningur milli þeirra félaga sem eru í sameiningaviðræðunum annars vegar og hinna aðildarfélaga sambandsins sem eftir verða hins vegar var þingstörfum fram haldið þar til ályktanir frá þinginu höfðu verð afgreiddar. Þegar kom að afgreiðslu fjárhagsáætlunar og stjórnarkjöri til næstu tveggja ára var lögð fram dagskrártillaga um að fresta þinginu um óákveðinn tíma. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar og stjórnarkjör  mun því fara fram þegar þinginu verður fram haldið en boðað verður til framhaldsþings þegar ljóst er orðið hvernig sameiningarviðræðum þessara 5 sjómannafélaga reiðir af.

Á þinginu voru samþykktar ályktanir um kjara- og atvinnumál og um öryggis og tryggingamál og er hægt að nálgast þær með því að smella á viðkomandi ályktanir.

4. september 2018

Breytingar á viðmiðunarverðum 4. september 2018

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að hækka viðmiðunarverð vegna viðskipta milli skyldra aðila um 1,2% á slægðum  þorski og um 7,8% á óslægðum þorski frá og með 3. september 2018. Frá sama tíma var ákveðið að lækka viðmiðunarverð á óslægðri ýsu um 7% vegna viðskipta milli skyldra aðila.

10. apríl 2018

Fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila.

Þegar fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila lækkar, sérstaklega ef það lækkar tvo mánuði í röð, fáum við oft spurningar um á hvaða grundvelli verðið sé lækkað. Sjaldnar er spurt um ástæður fiskverðshækkana.

Eins og menn muna var í kjarasamningunum sem undirritaðir voru í febrúar 2017 ákveðið að viðmiðunarverð á þorski, ýsu og karfa tækju mið af þriggja mánaða meðaltali á verði þessara tegunda á fiskmörkuðunum. Miðað er við að verð á fiski að ákveðinni þyngd miðist við 80% af skilaverði (markaðsverð að frádregnum 5% uppboðskostnaði) síðustu þriggja mánaða á fiskmörkuðunum. Verð á öðrum þyngdum fisksins miðast síðan við fyrirfram gefna þyngdarkúrfu hverrar tegundar fyrir sig. Viðmiðunarverð á þorski og ýsu er ákveðið sérstaklega fyrir slægðan fisk annars vegar og óslægðan fisk hins vegar. Verðið á fiskmörkuðunum til viðmiðunar er eingöngu miðað við verð á fiski sem boðinn er upp á mörkuðunum án VS afla sem seldur er á fiskmörkuðunum. Bein fiskviðskipti í gegn um fiskmarkaðina og sala á VS afla á uppboði eru sem sagt ekki tekin með í meðalverði á fiskmörkuðunum þegar viðmiðunarverð milli skyldra aðila er ákvarðað.

Auk fiskmarkaðsverðsins eru breytingar á afurðaverði framangreindra tegunda hafðar til hliðsjónar við verðlagninguna þannig að ef verð á fiskmörkuðum breytist úr takti við breytingar á afurðaverði í íslenskri mynt grípur úrskurðarnefndin inn í verðlagninguna. Miðað er við ±5% frávik til lengri tíma litið.

Í kerfinu er eins mánaða töf á verðákvörðunum. Sem dæmi lækkaði þriggja mánaða meðaltal á slægðum þorski á fiskmörkuðunum vegna mánaðana október, nóvember og desember árið 2017 um 1,9% frá meðaltali mánaðanna september, október og nóvember sama ár. Þetta leiddi til þess að verð á slægðum þorski lækkað frá og með 5. janúar 2018 um 1,9%. Verð á slægðum þorski hækkaði hins vegar um 2,1% frá meðaltali mánaðanna október, nóvember og desember 2017 til meðaltals mánaðanna nóvember og desember 2017 og janúar 2018. Þetta leiddi til þess að verð á slægðum þorski var hækkað um 2,1% frá og með 5. febrúar 2018. Með sömu aðferð var verð á slægðum þorski lækkað um 2,8% þann 5. mars 2018 og aftur var verðið lækkað um 3,4% þann 5. apríl 2018. Breytingar á afurðaverði þorsks á þessu tímabili gáfu ekki tilefni til inngripa í verðlagninguna.

Byrjað var að nota þetta fiskverðsmódel fyrir þorsk, ýsu og karfa í júní árið 2017. Í júní 2017 var verð á slægðum þorski lækkað um 2,7% frá viðmiðunarverðinu í maí 2017. Fram til áramóta hækkaði síðan verðið 5 sinnum á árinu. Þann 4. júlí 2017 hækkaði verðið um 4,9%, um 3% þann 6. september, um 10% þann 2. október, um 3% þann 6. nóvember og um 3,5% þann 4. desember. Þann 5. janúar 2018 lækkaði síðan viðmiðunarverð á slægðum þorski um 1,9% en hækkaði aftur í febrúar 2018 um 2,1%. Í mars og apríl lækkaði hins vegar viðmiðunarverðið á slægðum þorski, fyrst um 2,7% þann 5. mars og síðan um 3,4% þann 5. apríl síðastliðinn.

Þrátt fyrir tvær lækkanir á viðmiðunarverði slægðs þorsks í röð hefur hækkunin verið 16,1% frá verðinu eins og það var í maí 2017 og er þá lækkunin sem varð þann 5. apríl síðastliðinn komin inn. Viðmiðunarverð á slægðri ýsu hækkaði um 2,1% frá maí 2017 til apríl 2018 og viðmiðunarverð á karfa er í apríl 2018 2,8% hærra en það var í maí 2017.

Viðmiðunarverð á óslægðum þorski er hins vegar 7,7% lægra í apríl 2018 en það var í maí 2017 og verð á óslægðri ýsu er 3,3% lægra í apríl 2018 en það var í maí 2017.

Verð á ufsa, slægðum og óslægðum, fylgir alfarið verðvísitölu afurðarverðs á landfrystum ufsaafurðum og er verðið í apríl 2018 2,7% lægra en það var í maí 2017.

Verðvísitala afurðaverðs sem notuð er fyrir þorsk er samanvegin vísitala landfrystra, saltaðra og feskra afurða. Fyrir ýsu er notuð samanvegin afurðaverðsvísitala fyrir landfrystar og ferskar afurðir. Í karfa er eingöngu stuðst við verðvísitölu landfrystra afurða þar sem vísitala fyrir ferskar karfaafurðir er ekki birt enn sem komið er.

Að lokum vona ég að framangreind samantekt útskýri hvernig breytingar á viðmiðunarverðum framangreindra fisktegunda eru ákvarðaðar.

Hólmgeir Jónsson

10. apríl 2018

Breyting á viðmiðunarverðum 5. apríl 2018

Á fundi úrskurðarnefndar þann 5. apríl síðastliðinn var viðmiðunrverðum á þorski, ýsu og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila breytt sem hér segir:

Verð á slægðum þorski lækkar um 3,4%, verð á óslægðum þorski lækkar um 5,4%, verð á slægðri ýsu lækkar um 4,6%, verð á óslægðri ýsu lækkar um 2,2% og verð á karfa lækkar um 6%.

Framangreindar breytingar gilda frá og með 5. apríl 2018.

8. mars 2018

Viðmiðunarverð í mars 2018

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 5. mars síðastliðinn voru ákveðnar eftirfarandi breytingar á viðmiðunarverðum þorsks, ýsu, karfa og ufsa:
Viðmiðunarverð á slægðum þorski lækkar um 2,7% og viðmiðunarverð á óslægðum þorski lækkar um 3,6%.
Viðmiðunarverð á slægðri ýsu lækkar um 2,1% og viðmiðunarverð á óslægðri ýsu lækkar um 4,6%.
Viðmiðunarverð á karfa lækkar um 4,5%.
Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa hækkar um 1,5%.

Framangreindar breytingar gilda frá og með 5. mars 2018.

7. febrúar 2018

Breyting á viðmiðunarverði þorsks, ýsu og karfa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 5. febrúar var viðmiðunarverð á slægðum þorski hækkað um 2,1%. Viðmiðunarverð á óslægðum þorski var lækkað um 3,5%. Viðmiðunarverð á slægðri ýsu var lækkað um 0,9%. Viðmiðunarverð á óslægðri ýsu var hækkað um 1,3% og viðmiðunarverð á karfa var hækkað um 3%. Framangreindar breytingar á viðmiðunarverðum gilda frá og með 5. febrúar. 

5. febrúar 2018

Línuuppbót 2018 skv. kjarasamningi milli SSÍ og SFS

Að gefnu tilefni er vakin athygli á því að í síðustu kjarasamningum milli SSÍ og SFS kom inn ákvæði um sérstaka línuuppbót til skipverja á  línuskipum með beitingavél sem eru á útilegu. Þetta ákvæði kom inn í alla kjarasamninga sjómanna sem undirritaðir voru þann 18. febrúar 2017. Í grein 2.06 í kjarasamningi SSÍ segir:

"Skipverji sem er á línubátum með beitningavél á útilegu sem hefur verið 110 til 160 daga á sjó skal fá greidda línuuppbót miðað við fjölda úthaldsdaga á sjó. Hafi skipverji verið fleiri en 160 daga á sjó skal hann njóta fullrar línuuppbótar, en annars hlutfallslega þar sem uppbótin lækkar um 2% hvern fækkaðan dag. Óskert línuuppbót skal vera kr. 50.000 og greiðist fyrir 15. janúar ár hvert miðað við úthald síðastliðins almanaksárs. Skipverji sem hefur tekjur yfir kr. 50.000 á hvern úthalds­dag, á ekki rétt á þessari greiðslu. Hætti skipverji störfum hjá útgerð fyrir lok almanaksárs, skal hann fá línuuppbót greidda við lokauppgjör."

 

5. janúar 2018

Breytingar á viðmiðunarverðum þorsks, ýsu, karfa og ufsa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákeðið að breyta viðmiðunarverðum á þorski, ýsu, karfa og ufsa í viðskiptum milli skyldra aðila  sem hér segir:

Viðmiðunarverð á slægðum þorski lækkar um 1,9%.

Viðmiðunarverð á óslægðum þorski lækkar um 4,9%.

Viðmiðunarverð á slægðri ýsu hækkar um 1,5%.

Viðmiðunarverð á karfa hækkar um 4,0%.

Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa lækkar um 1,2%.

Framangreindar breytingar á viðmiðunarverðunum taka gildi frá og með 5. janúar 2018. 

29. desember 2017

Úrsögn SVG úr Sjómannasambandi Íslands

Á félagsfundi í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur þann 13. desember síðastliðinn var samþykkt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Sjómannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk þann 28. desember sl. og hafa atkvæði nú verið talin.

Á kjörskrá hjá félaginu voru 541 félagsmaður og af þeim greiddu 114 atkvæði um úrsögnina úr SSÍ eða 21% félagsmanna. Af þeim sem tóku afstöðu samþykktu 107 úrsögn úr Sjómannasambandi Íslands eða 94% þeirra sem greiddu atkvæði. Þrír greiddu atkvæði gegn úrsögn og fjórir seðlar voru auðir eða ógildir. Varðandi úrsögn úr ASÍ var niðurstaðan sú sama.

Það er því niðurstaða þessarar atkvæðagreiðslu að Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur fer úr Sjómannasambandi Íslands og verður því ekki lengur eitt af aðildarfélögum þess.