7. nóvember 2017

Breyting á viðmiðunarverði þorsks, ýsu og ufsa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 6. nóvember síðastliðinn var ákveðið að breyta viðmiðunarverðum á þorski, ýsu og ufsa sem hér segir:

Þorskur, slægður hækkar um 3%.

Þorskur, óslægður hækkar um 5%.

Ýsa, óslægð lækkar um 5%.

Ufsi, slægður og óslægður lækkar um 1,3%.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 6. nóvember 2017.

24. október 2017

Viðmiðunarverð í október

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 2. október 2017 var eftirfarandi breyting á viðmiðunarverðum í viðskiptum milli skyldra aðila samþykkt:

Þorskur, slægður  10% hækkun.

Þorskur, óslægður 7% hækkun.

Ýsa, slægð 4% hækkun.

Karfi 7% hækkun

Ufsi, slægður og óslægður 3,2% hækkun.

Verðbreytingin tók gildi 2. otóber

6. september 2017

Breyting á viðmiðunarverði þorsks, ýsu, karfa og ufsa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í morgun voru samþykktar eftirfarandi breytingar á viðmiðunarverðum eftirtaldra fisktegunda í viðskiptum milli skyldra aðila sbr. kjarasamning aðila:

þorskur, slægður hækkar um 3,0%,

þorskur, óslægður hækkar um 3,0%,

ýsa, slægð hækkar um 2,0%,

ýsa, óslægð er óbreytt,

karfi hækkar um 3,0% og

slægður og óslægður ufsi hækkar um 2,6%

Framangreindar breytingar gilda frá og með 6. september.

Í síðustu kjarasamningum milli SFS og samtaka sjómanna var gerð breyting á þeirri aðferð sem notuð er til að ákvarða viðmiðunarverð á þorski, ýsu og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila. Miðað er við hlutfall af fiskmarkaðsverði síðustu þriggja mánaða, en jafnframt var sett inn viðmið við breytingar á vísitölum afurðaverðs til að tryggja að breytingar á viðmiðunarverðinu færu ekki úr takti við breytingar á afurðaverði framangreindra fisktegunda.

Ekki hefur farið fram hjá þeim sem fylgjast með sölum á fiskmörkuðunum að markaðsverð hefur verið frekar lágt að undanförnu. Ef eingöngu hefði verið miðað við markaðsverðið við ákvörðun á breytingu viðmiðunarverðsins að þessu sinni hefði þurft að lækka verð á sumum framangreindra fisktegunda, t.d. slægðum þorski. Að þessu sinni gripu því varnirnar, þ.e. viðmiðunin við afurðaverðið, inn í og því hækkar viðmiðunarverðið í stað þess að lækka.   

7. júlí 2017

Breyting á viðmiðunarverðum þann 4. júlí

Viðmiðunarverð á þorski, ýsu og ufsa í viðskiptum milli skyldra aðila breytast sem hér segir frá og með 4. júlí 2017.

Viðmiðunarverð á slægðum þorski hækkar um 4,9% og á óslægðum þorski um 2,2%. Viðmiðunarverð á slægðri ýsu hækkar um 4,1% og viðmiðunarverð á óslægðri ýsu um 12,8%.

Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa lækkar hins vegar um 4,1%

12. júní 2017

Breyting á viðmiðunarverðum þorsks, ýsu og karfa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 7. júní síðastliðinn var ákveðið að breyta viðmiðunarverðum á þorski, ýsu og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila. Viðmiðunarverðin breytast sem hér segir:

Þorskur, slægður:       -2,7%

Þorskur, óslægður:   -12,0%

Ýsa, slægð:               -4,9%

Ýsa, óslægð:            +3,4%

Karfi:                       -3,0%

Verðbreytingin tekur gildi 7. júní.

 

4. maí 2017

Viðmiðunarverð á karfa og ufsa lækkað

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að lækka viðmiðunarverð á karfa í viðskiptum milli skyldra aðila um 3%. Jafnframt var viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa í viðskiptum milli skyldra aðila lækkað um 1,3%. Viðmiðunarverð annarra tegunda (þorsks og ýsu) er hins vegar óbreytt. Framangreind verðákvörðun gildir frá og með 4. maí.

4. apríl 2017

Breyting á viðmiðunarverði ufsa og karfa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í dag var ákveðið að lækka viðmiðunarverð í viðskiptum milli skyldra aðila á karfa og ufsa. Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa var lækkað um 5,7% og viðmiðunarverð á karfa var lækkað um 5%. Ákvörðunin gildir frá og með 4. apríl 2017.

2. mars 2017

Breyting á viðmiðunarverði þorsks, karfa og ufasa

Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var viðmiðunarverð í viðskiptum milli skyldra aðila lækkað um 5% á slægðum og óslægðum þorski og um 5% í karfa. Viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa var hins vegar hækkað um 1,8%. Framangreind ákvörðun gildir frá og með 2. mars 2017.

21. febrúar 2017

Þátttaka í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og verkfall

Eftir atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn sem undirritaður var milli samtaka sjómanna og SFS þann 18. febrúar síðastliðinn hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Sumir halda því fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leystst með stuttum fyrirvara. Eins og menn vita voru kjarasamningar felldir í tvígang í þessari deilu og því fróðlegt að skoða hvernig þátttakan var allt þetta ferli.

Kjarasamningur var undirritaður milli Sjómannasambands Íslands og SFS þann 24. júní 2016. Aðilar að þeim samningi voru öll aðildarfélög Sjómannasambandsins að VerkVest undanskildu. Sjómannafélag Íslands var ekki aðili að þeim kjarasamningi. Atkvæðagreiðslan um þennan samning fór fram ýmist með póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi. Atkvæðagreiðslan stóð yfir til 8. ágúst 2016 og voru atkvæði talin þann 10. ágúst 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 38,5%. Samningurinn var felldur með 66% atkvæða eins og menn vita.

Í kjölfar þess að kjarasamningurinn frá 24. júní 2016 var felldur var farið í atkvæðagreiðslu um allsherjarverfall á fiskiskipaflotanum. Atkvæðagreiðsla um verkfallið stóð í um mánuð og lauk henni þann 17. október 2016. Öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, en þetta eru sömu félögin og töldu sameiginlega um samninginn sem undirritaður var 18. febrúar 2017. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um verkfallið hjá aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélagi Íslands var samanlagt 54,2%. Verkfall var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.

Kjarasamningur var undirritaður þann 14. nóvember 2016. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Íslands voru ekki aðilar að þeim samningi, en þeir undirrituðu samning daginn eftir. Þessir samningar fóru í atkvæðagreiðslu og var verkfalli frestað. Atkvæðagreiðslunni um þessa samninga lauk 14. desember 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samningana var óvenju mikil eða 60,4% þegar félög innan Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélag Íslands eru talin saman.

Kjarasamningur var undirritaður 18. febrúar 2017 og voru aðilar að samningunum öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk að kvöldi 19. febrúar 2017 og stóð því yfir í stuttan tíma. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 53,4% eða sambærileg og um verkfallið og mun betri en um kjarasamninginn frá 24. júní 2016.

Samkvæmt framansögðu er hæpið að halda því fram að þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samninginn frá 18. febrúar 2017 hafi verið léleg. Þvert á móti er hún sambærileg og alla jafna um kjarasamninga hjá sjómönnum þrátt fyrir stuttan afgreiðslutíma á samningnum.

 

19. febrúar 2017

Kjarasamningarnir samþykktir.

Atkvæði hafa verið talin um kjarasamningana milli Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands annars vegar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins hins vegar sem undirritaðir voru 18. febrúar 2017.

Á kjörskrá voru 2.214 sjómenn og greiddu 1.189 þeirra atkvæði eða 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá.

Af þeim sem kusu um samninginn sögðu 623 já eða 52,4%. 558 sögðu nei eða 46,9%. Auð og ógild atkvæði voru 8 eða 0,7%.

Talningu atkvæða um samninginn lauk um kl. 21:00. Samkvæmt framansögðu voru kjarasamningarnir samþykktir. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi samþykktu einnig samninginn. Verkfalli sjómanna og verkbanni útgerðarmanna hefur því verið aflýst.